29.3.08

Smáræði

Góðar fréttir!
Ég er búin að kaupa borðplötu. Ég keypti gegnheila beykiplötu. Hún er F-L-O-T-T!
Núna er verið að klambra saman stiganum og svo verður rafmagnið dregið í. Þá vantar bara eina smá sturtu, og svo flyt ég inn. Já það er nú það. Þetta er alveg að gerast og djöfull er ég spennt. Annars kemst lítið annað en lokaverkefnið mitt að.
Einfaldar stærðfræðiformúlur þvælast fram og aftur um kollinn á mér og meika ekkert sens. Hlutir eins og að setja upp í veldi, taka kvaðratrót og reikna hlutföll eru meira að segja orðin mér um megn. Mig dreymir að ég uppgötvi svakalega flóknar formúlur og reikni ferlega erfið og stór dæmi. Svo þegar ég vakna og ætla að skrifa lausnina hjá mér og massa þetta, þá er það bara eitthvað rugl.
Ferlega svekkjandi
En samt hrikalega fyndið.
Í morgun vaknaði ég með lausnina og skrifaði hjá mér:
100 * 9 = 900
kvaðrat af 9 = 3
Snilld!
Finnst þér ekki?
Spurning hvort ég fæ að útskrifast?
Neeeh...

26.3.08

áfram og áfram

Ég er heima hjá mér í dag, og ætla að nota daginn í ritgerðarsmíð. Hef verið með manni mínum og börnum að smíða á fullu síðustu daga.
Við erum að verða búin að græja eldhúsinnréttinguna upp. Lentum reyndar í hrikalegri krísu vegna borðplötunnar. Vonandi leysist það fljótlega, því það vantar óneitanlega heilmikið án hennar.
Er andlaus, enda hugurinn fyrir austan í gipsuppsetningu og málningarvinnu.
Þarf samt að klára ritgerðina, helst í þessari viku, því nú er akkúrat mánuður í skilin.
Sendið mér góða strauma.

21.3.08

Ó mæ sjitt- allt brjálað!!

Fór og hitti minn yndislega eiginmann og átti með honum dásamlega helgi í Kaupmannahöfn. Við sváfum vel og nutum þess að vera saman. Tvö barnanna okkar voru voða lasin, og það var auðvitað erfitt, en þau voru í góðum höndum. Ég þvoði engan þvott og vaskaði ekkert upp. Það var nú aldeilis ljúft.
Þegar við komum heim fengum við leiðinda símtal þar sem okkur var tjáð að brotist hefði verið inn í húsið okkar og nokkrir óþekktarormar hefðu gengið berserksgang þar inni.
Við brunuðum austur til að líta á, og aðkoman var ekki skemmtileg.
Þeir höfðu brotið tvær rúður og klósettvaskinn. Þeir höfðu burðast með tugi lítra af málningu, lakki og grunnum af ýmsu tagi upp stigann og kastað þeim niður um stigaopið. Það eru slettur um allt. Þeir helltu niður 5 lítrum af olíu á gólfið. Þeir skemmdu helling af gipsi, skáru í parkettpakkningu, skemmdu hnífana og stálu límbandinu. Þeir tróðu pappír í klósettið og sturtuðu niður þar til allt flæddi um allt. Þeir tæmdu úr duftslökkvitækinu og margt margt fleira.
Það fara margir dagar í að taka til eftir þá, og hreinsa almennilega til í húsinu.
Við vorum mjög heppin að nágranni okkar heyrði í þeim og hljóp þá uppi.
Ég er ótrúlega gröm út í þessa pörupilta.
En við höldum okkar striki.
Í dag settum við gips á veggina í eldhúsinu og á morgun er spartl og málning. Svo verður innréttingin sett upp.
Vei, vei, vei...

11.3.08

Namm namm - Stríðnin að drepa Doppu

Hún Doppa mín er lasin. Voða skrýtin, alltof róleg og hitaleg. En stríðnin er ekkert minni, þótt hún sé slöpp.
Ég lá hjá henni áðan á meðan hún var að sofna. Við vorum að hlusta á útvarpið og hún var mjög slök og ánægð með sig. Raulaði með og boraði dáldið í nefið.
Ég fór að stríða henni, tók puttann á henni og potaði í nefið hennar. Oj oj oj... Hún hló.
Svo stakk hún puttanum á kaf í nösina, stakk honum upp í sig, brosti og sagði: namm namm, epla!
Svo stakk hún puttanum á kaf í hina nösina, stakk honum svo upp í sig og sagði: namm namm, appelsínu!
Svo hló hún alveg eins og bavíani, og ég líka auðvitað...
Dásamleg Doppa

Pæla og planleggja

Það er mottó lífs míns þessa dagana.
Allir eru komnir með pössun, líka kettlingarnir. Þá er bara að pakka rétt niður fyrir alla. Fermingarveisla hér og júdómót þar. Það er víst nóg að gera þótt ég bregði mér af bæ í nokkra daga.
Lokaverkefnið er á fullum sving.
Ég er komin með öll gögnin, og núna joggla ég þeim fram og til baka í excel til að skoða hvernig best er að fá einhverja sniðuga niðurstöðu.
Það verður gaman að sjá.
Og nú eru bara 2 dagar í mitt langþráða rómantíska húsmæðraorlof.
aaaaaaaaaahhhhhhhhhhhhhhh..............................

5.3.08

Halló

Það er rétt hjá mömmu gömlu. Það var eitthvað fyndið þarna. Ég mundi bara ekki hvað það var. En auðvitað voru þær steinhissa á fæðingardeildinni þegar kallin bað um að fá að skella sér í fótabað með kellu. En að þær skyldu endilega vilja troða honum í rósóttu skýluna var auðvitað mjög sniðugt.
Það var gott að hafa hann ofan í. En ég þurfti að fara upp úr þegar Stormur var alveg að fæðast. Það var ekki auðvelt, og þá var nú gott að hafa gamla fyrir aftan til að ýta...
Og það var líka eins gott, því eins og kom fram í kommenti síðast var hann vel vafinn.
Þegar næsti grislingur fæddist, vorum við ofan í pottinum allan tímann. Það var mjög spes, og bara alveg frábært.
Ég tel niður. Ein vika á morgun þar til ég legg í ferðalag.

3.3.08

Kennarar... BÖÖÖÖÖÖÖ (sorrý mamma!)

Fæðingarsagan hans Storms er ekkert skemmtileg.
Ég beið í 6 daga eftir honum. Hann var bara ekkert að spá í að láta sjá sig.
Þegar var kominn settur dagur, þá brunuðum við nýbökuð hjónin á Selfoss með litluna okkar í nýja skódanum. Við ætluðum að vera hjá mömmu og pabba þar til pungurinn fæddist. Það var alveg arfavitlaust veður á heiðinni, og lögreglan var að undirbúa sig undir að stoppa umferðina. Við vorum síðasti bíll yfir...
Já, skódinn bregst ekki. Hann er reyndar orðinn of lítill fyrir þessa ofur-stóru-ekki-vísitölu-fjölskyldu, en hann er ennþá til og dugir vel.
Gistum svo bara í góðu yfirlæti hjá mömmu og pabba og höfðum það rólegt. OF rólegt reyndar, en það er annað mál.
En svo dreif hann í þessu, og það var heljarinnar helvítis mál að koma honum í heiminn. Ég var bara alveg búin á því. Orgaði og gargaði þannig að það heyrðist út yfir á. En hann komst.
18 merkur, algjör bolla. Og þvílíkt augnayndi auðvitað. Og er enn.
Hann var ekki lengi að verða 9 ára.

1.3.08

Stormur 9 ára

á morgun.
Í dag fór hann á júdómót og lenti í öðru sæti. Ég er mjög stolt af honum. Þetta var fyrsta utanfélagsmótið hans, og hann stóð sig stórkostlega. Sá eini sem náði honum niður mátti sko alveg hafa fyrir því skal ég segja þér.
Hvað um það. Á morgun er bekkjarpartý kl. 13, og svo fjölskylda kl. 16.
Allir velkomnir ef þú ert á ferðinni. Það er amk pottþétt kaffi á könnunni, og kaka með því.
Að huxa sér að það séu komin 9 ár síðan hann fæddist. Hvað tíminn líður. Það þýðir líka að ég er að verða 29 bráðum...
Skemmtileg saga á morgun af fæðingardeginum.
Núna þarf að baka. Og ég ELSKA að baka.