29.9.09

Morgunfyrirmæli

Hann Gormur minn sem er 8 ára er stundum í einhverjum allt öðrum heimi en við hin.
Á morgnana er hann sérlega utan við sig og þá þarf ég að passa að gefa stutt fyrirmæli, og passa að koma við hann, eða vera viss um að hafa náð augnsambandi.
Í morgun var hann að gaufa eitthvað við morgunmatinn og ég var að fara í vinnuna. Ég tek í handlegginn á honum og segi: Greiða, sokkar, peysa.
Greiða, sokkar, peysa. Heyriru það ormurinn þinn?
Hann lítur á mig og endurtekur:
Greiða, sokkar, play station.
Já einmitt.

24.9.09

Nýjar dýnur

Dýnurnar í hjónarúminu mínu voru orðnar vægast sagt mjög lélegar.
Við hjónin ákváðum því að láta laga þær og skipta um áklæðið. Það kostar minna en að kaupa nýjar og okkur þótti það vel við hæfi að þessu sinni.
Í gærmorgun dröslaði ég dýnunum út í bílinn minn og hélt með þær áleiðis til höfuðborgarinnar og beint þar í viðgerð.
Um klukkustund síðar fékk ég símtal þar sem mér var tjáð að þessar dýnur væru algjörlega handónýtar og að það myndi kosta talsvert meira að gera við þær, en að kaupa nýjar.
Svo ég keypti nýjar dýnur. Þær eru vel stífar og það er æðislega góð ekki-pissulykt af þeim.
Ég svaf ótrúlega vel í nótt og hlakka barasta til að fara heim og skríða upp í rúm. Mmmmm...

Í morgun voru að venju þessi tvö yngri komin uppí. Ég vakti Gorminn, sem er svo léttur og grannur að hann leit út eins og hann lægi á harðri spýtu á þessum stífu dýnum.
Ég ákvað að nota tækifærið og spyrja hann hvort honum fyndist ekki við hæfi að fara að sofa alla nóttina í sínu rúmi, og þá sérstaklega vegna þess að þessar dýnur væru gerðar fyrir frekar þungt fólk, en ekki svona mjórassa.
Þá sagðist hann aldrei aldrei aldrei ætla að hætta að koma upp í.
Planið hans var að éta svo ógeðslega mikið að hann yrði svaka feitur, og gæti liðið vel í mömmurúmi.
Svo spurði hann mig af hverju í ósköpunum ég hefði ekki tekið gömlu dýnurnar aftur heim. Hann saknaði þeirra svo mikið.

21.9.09

Doppa litla

Um daginn vorum við að fara að horfa á mynd saman, ég og krakkarnir. Ég var eitthvað að velta því fyrir mér hvort hægt væri að stilla myndina á íslenskt tal, og spurði krakkana hvort hún væri ekki á íslensku. Þá sagði Doppa litla: Mamma. ÉG er á íslensku.

Þegar var verið að kveðja rakkann Spora sem var að fara í geldingu, sagði skottið: Bless Spori, segðu bless við kúlurnar!

Hún er alveg óborganleg þessi rúsína, eins og auðvitað hin börnin mín voru líka. Yndislegt.

12.9.09

Kjarkurinn...

Það eru skrýtnir tímar á Íslandi. Ég er ekki viss um mína vinnu, og maðurinn minn er hreint ekki viss um sína.
Við ákváðum því að hafa opin augun og einblína ekki endilega bara á klakann.
Ég sendi eitt bréf frá mér þar sem ég flagga áhuga og 10 dögum seinna er búin að panta far til Danmerkur þar sem ég mun fara í þrjú atvinnuviðtöl.
Þetta er ótrúlega skjótur tími, og maður hefur varla tíma til að pæla í þessu.
Ég er bara að fara að skoða málin. Ekkert merkilegt. Ég er búin að fara yfir þetta hundrað sinnum í huganum, vega og meta kosti og galla og vera hrædd og spennt til skiptis.

Í kvöld bauð ég ömmu minni í kvöldmat. Við erum æðislega góðar vinkonur, og náum vel saman. Getum spjallað um alla heima og geima og dáðst hvor að annarri og gefið ráð.
En ég gat ekki fyrir mitt litla líf sagt henni að ég væri að fara í þessi atvinnuviðtöl. Ég bara gat það ekki. Stundi svo upp á endanum að ég hefði sótt um í Danmörku.
Tárin komu upp í augun á henni, og hún kvaddi mig svo með þeim orðum að hún vonaði að allt gengi vel og að ég þyrfti á endanum ekkert að flytja til útlanda.

Ég er með samviskubit, því ég var eiginlega að ljúga að ömmu minni, trúnaðarvinkonu minni sem hefur svo oft huggað mig þegar lífið er skrýtið og erfitt.

Mér líður dáldið eins og skíthæl.

6.9.09

Hugleiðsla

Fór um helgina í hugleiðslu með fríðum hópi fólks.
Ég er mjög fordómafull manneskja, og þarf alltaf að vanda mig að láta fordóma mína ekki stjórna mér og hegðun minni.
Þegar við mættum á staðinn sá ég einn munkinn sem var að kenna og var nærri því dottin um koll af hissi. Hann var auðvitað í appelsínugulum kjól með appelsínugulan túrban á kollinum. Nunnurnar voru skömminni skárri í kjólunum sínum.
En ég ákvað að hafa opinn huga og njóta þess sem var í boði.
Við fórum í hugleiðslu og jóga og borðuðum hollan og góðan mat, og allt þetta í frábærum félagsskap. Ég svaf rassgatið af mér og naut þess að vera í slökun í friði og ró.
Ég elska þetta, og er strax farin að hlakka til næst...