30.4.08

Mamma hafði rétt fyrir sér

Það er auðvitað algjörlega fáránlegt að halda því fram að kallinn hafi verið í fríi þessar síðustu 6 vikur. Hann hefur síður en svo verið í fríi. Hvorugt okkar reyndar. Við vorum orðin svo úrvinda núna síðustu dagana að það var varla hægt að tala við okkur. Það mokaðist líka hellingur undan okkur og aðstoðar-ættingjum okkar. Við kláruðum næstum alla veggina, eldhúsið er klárt og baðherbergin eru alveg að smella. Þvottahúsið er til og allt rafmagn er komið.

En nú er hann kominn í vinnuna sína, þessa sem hann fær borgað fyrir að vera í.
Hann fór í morgun.
Ég er auðvitað hundleið og allt það, það fylgir því.
Þetta er alltaf erfitt framyfir fyrstu helgina, og svo jafnar það sig. Síðan er síðasta vikan alltaf mjög lengi að líða. Í þetta sinn verður hann sex mánuði úti, með tveimur 2 vikna fríum.

Ég ætla að skrúfa, spartsla, mála og þrífa og flytja inn áður en ég byrja að vinna, þann 16. júní.
Klikkuð?
You better believe it mar...

27.4.08

Einn, tveir og ANDA...

Long tæm nó sí eins og sagt er.
Ég skilaði ritgerðinni á föstudaginn. Það var alveg frábært. Nú er ég bara einu smá skrefi, eða stóru skrefi, sko ritgerðarvörninni, frá útskriftinni. JÍ HAAAA
Ég er komin með 60% sumarvinnu frá júní fram til sept, og möguleika á áframhaldandi eftir áramót, svo ég er auðvitað bara alveg í skýjunum.
Nú styttist all-skuggalega í að kallinn fari aftur að vinna. Æ, það er bara svo margt sem á eftir að gera til að þessi húsbygging gangi alveg upp. Ég veit sem sagt hvar ég verð alla lausa daga.
Það er auvitað ekkert ofverk mitt að sparstla, mála, flísaleggja, parketleggja og þannig, en það er í raun það sem eftir er. Við ætlum að henda upp innveggjunum, og hann ætlar að ganga frá rafmagninu áður en hann fer.
Það er komið baðherbergi, þvottahús, eldhús....what more do I need...
Ég mun flytja með krakkana áður en ég byrja að vinna. Það er líklegasta planið eins og er.
Jæja, ég rausa bara og rausa.
Ég fór á Jesus Christ Superstar í gær. VÁÁÁÁ!!! Þetta var eins og að fara á tónleika. Söngurinn er alveg meiriháttar. Júdas var langsamlega og algjörlega langbestur. Meiriháttar.
Ég skemmti mér þvílíkt vel.

15.4.08

Enn og alltaf að...

Ég er búin með ritgerðina mína.
Yfir-sílið fór yfir hana fyrir mig um helgina.
Takk kæra yfir-síli, þú ert dásamlega og yndislega smámunasöm, og ég er þér óendanlega þakklát.
Leiðbeinandinn fór líka yfir hana um helgina.
Hún sagði að ritgerðin væri ljómandi góð og bað mig að færa eina mynd.
Allir bekkjafélagar mínir sitja sveittir og skælandi af stressi yfir þessum skrifum. Bara 10 dagar í skil!!!
Þetta stressar mig dáldið, því ég hef barasta aldrei heyrt um neinn sem hefur verið búinn með BSc ritgerðina sína hálfum mánuði fyrir deadline, og hefur ekki fengið neinar leiðréttingar eða ábendingar af ráði frá leiðbeinanda sínum. Ég er orðin skíthrædd um að ég hafi misskilið þetta bara eða eitthvað... nei nei segi bara svona.
Annars á ég eina góða sögu:
Gormur, sem verður 7 ára á morgun hefur átt erfiðan fyrsta vetur í skólanum. Hann er ekki að fíla sig og "hatar" skólann á hverjum morgni. Kennarinn heldur að hann sé ólæs og kunni enga stafi eða neitt. Hann er þver og þrjóskur og gerir ekki það sem hann á að gera.
Heima er frekar erfitt að fá hann til að læra, en það hefst með smá spjalli, svona yfirleitt að minnsta kosti.
Í dag var hann að lesa. Stautaði löturhægt orðin í bókinni og giskaði á flest orðin. Hann var allt annarsstaðar og alveg úti að aka.
Ég var orðin nett pirruð á þessum hægagangi. Það endaði á því að ég hvæsti á hann:
"Af hverju í fjandanum lestu ekki bara orðin? Ég veit alveg að þú kannt það vel!!!"
Þá hló hann og sagði:"mér finnst bara svo gaman að stríða þér!"
Svo gaf hann mér krúttlegasta bros í heimi, las allt á ofurhraða og hljóp svo út að leika sér. Ofurglaður Tappi, ekkert að honum!
Hann fékk bara stríðnina úr föðurættinni minni, og kann að beita henni.

9.4.08

Ég hef alltaf gert grín að þeim sem þramma í ræktina tvisvar á dag.
Mér finnst ótrúlega fyndið og reyndar stórmerkilegt að fólk hafi svo lítið fyrir stafni að það sjái sér fært að mæta tvisvar á dag í ræktina. Þetta er eitthvað svona fansí smansí dót, fyrst brenna, svo lyfta. Ég veit ekki.
Ég fer á morgnana kl. 6.15 og mæti þar hrikalegri kellingu sem lemur mig áfram eins og harðfisk. Það er gott fyrir mig, því ég er oft dáldið góð við sjálfa mig.
Eníhú
Ég steinsvaf yfir mig á mánudaginn, alveg til 6.30, og var einmitt of góð við sjálfa mig og snúsaði klukkuna til sjö.
Þegar ég mæti svo á þriðjudagsmorguninn, þá segir hún mér að ég hafi verið óþekk að sleppa mánudeginum, og að ég þurfi að bæta það upp. Hún segir mér þá að hún sé með tíma í hádeginu, og ég komi bara þangað. Svo í gær, þá fór ég tvisvar í ræktina sama daginn. Og ef þið haldið að hún hafi gefið mér afslátt af púlinu vegna þess að ég var svo dugleg að mæta tvisvar, þá skuluði huxa ykkur aftur um. Hún er KLIKK!!!
Og ég elska hana...
En ég var svo þreytt þegar ég kom heim eftir hádegistímann að ég gat ekki lyft hendinni upp að munninum til að borða, hvað þá annað. Og það er slæmt fyrir matargat eins og mig.
Og svo fór ég að sofa kl. 22 í gærkvöldi.
Svo kláraði ég ritgerðina mína, og skilaði henni til leiðbeinanda til yfirlestrar.

Ég er í skýjunum!

7.4.08

Vikulegt blogg

Það er það sem þetta er orðið. Bara einu sinni í viku, give or take.
Ég er komin aftur af stað í ræktina eftir frekar ríflegt páskafrí. Mæti núna kl. 6.15 og púla af mér rassinn(vonandi) áður en ég fer heim að koma liðinu af stað í skólann. Það er lúxus að hafa kallinn heima til að draga krakkana fram úr, því það er nú ekki á topp 10 listanum mínum.
Um helgina var verið að draga rafmagnið í húsinu, og ég var að pússa stigann minn nýja. Í vikunni ætla ég svo að olíubera hann með forláta rauðbrúnum lit sem ég verslaði mér. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig hann verður á eftir.
Annars er þetta bara ritgerðin áfram. Planið núna er að koma henni frá mér til leiðbeinanda, og opinbers prófarkalesara (Það er yfir sílið sko...) eftir tvo daga. Úff úff, vonandi tekst mér það. Þetta er dáldið líkt húsbyggingaplönum. Maður áætlar sér rúman tíma því maður veit að það er alltaf lengur en maður heldur, og svo fer maður langt langt framúr þeim tímamörkum. HAHA...

3.4.08

Kominn stigi

Kallinn er búinn að vera sveittur að smíða þennan líka fína stiga.
Nú er hann tilbúinn með handriði og alles, svo þið sem eruð lofthrædd getið loxins kíkt upp á loft.
Pabbi kom í gær og skellti einu stykki handriði á stigagarminn. Gott að hafa gamlann að hjálpa til. Hann er svo assgoti vandvirkur. Sumir myndu segja fullkomnunarárátta, en ég fullyrði ekkert á opinberum vettvangi.
Það er að minnsta kosti gott að hafa hann.
Það er mikið sem á eftir að framkvæma áður en karlinn (minn) hverfur aftur til starfa, eftir tæpan mánuð. Svo það veitir ekkert af því að taka þeirri hjálp sem býðst með þökkum.
Annars er skemmst frá því að segja að stærðfræðikunnáta mín hefur bestnað all mikið frá síðustu færslu. Það sést best á því að lokaritgerðin er farin að "meika sens", og það á íslensku.
Verð í því næstu daga að klára hana og koma frá mér.
Lifið heil