27.4.09

Dauðablogg

Þetta er dauðablogg.
VARÚÐ VIÐKVÆMIR!!!
Um helgina fórum við í fermingarveislu til bestu vinkonu hennar Gormalínu.
Hún klæddi sig í sitt besta púss, greiddi sér og málaði sig og hafði mikið fyrir þessu öllu saman. Áður en veislan hófst fórum við í Smáralindina til að kaupa fermingargjöfina.
Þar gekk mín unga dóttir um á sínum háu hælum og skoðaði í búðarglugga.
Hver einasti drengur á aldrinum 10-40 ára sneri sér við til að horfa á hana.
Ég gekk á eftir henni og huxaði ljótt um alla drengi sem voru eldri en 14, því ég vissi hvað þeir voru að huxa.
Þá langaði mig mjög mikið að vera með einhvers konar skotvopn og láta vaða af því.
En bara viðvörunarskot sko, ég er enginn geðsjúklingur!!!

Í gær spurði Doppa mig svo í mikilli einlægni:
"Er pabbi minn dauður?"

Ég sagði henni að hann væri bara í burtu í nokkra daga og svo kæmi hann aftur.
Hún yppti bara öxlum og sagði: "Ó!"

22.4.09

Grænland - Ísland

Kallinn minn er farinn til Grænlands. Hann ætlar samt ekki að vera mjög lengi. Bara mánuð í einu. Það er nú bara lítið í okkar herbúðum.
Næstelsti grislingurinn minn varð átta ára í síðustu viku.
Ég hitti tónmenntarkennarann hans um daginn og hún var að segja mér að hann hefði mikla tónlist í sér og það væri gáfulegt að láta hann fara í tónlistarnám á næsta ári. Ég trúi henni alveg því hann hefur alltaf verið mikið fyrir tónlist og haft góðan takt í sér.
Í gær var hann svo að æfa sig á blokkflautuna, því þau fá að læra á blokkflautu í skólanum. Hann spilaði tvö stutt lög upp af nótnablöðum, tvisvar sinnum hvort. Ekkert mál.
Í gærkvöldi heyrði ég hann svo spila á flautuna lögin tvö, en hann var ekki með nein nótnablöð.
Þetta fannst mér alveg magnað að heyra.
Nú er bara spurning hvaða hljóðfæri verður fyrir valinu.
Spennandi.

11.4.09

Gleðilega páska 2009

Við lögðum land undir fót og heimsóttum tengdaforeldra mína þar sem öll systkini mannsins míns voru saman komin og mjög upptekin við að ergja aumingja ömmu og afa.
Þegar maðurinn minn var að svæfa Doppu eitt kvöldið var hún að segja honum svakaleg ævintýri. Hann sagði henni að kannski myndi hún verða rithöfundur þegar hún yrði stór.
Þá sagði hún: Rykhundur? Nei takk, ég held að ég vilji ekki vera það!!

6.4.09

Mig dreymdi að ég tók vinstri baugfingurinn af manninum mínum.
Þetta er fingurinn sem hann hefur giftingahringinn á, en í draumnum var hann ekki með hringinn og það blæddi ekkert.
Ég var í algjöru panikki allan drauminn að reyna að koma fingrinum í poka með vatni og klaka og hringja í lækni og vasast og vesenast til að reyna að bæta fyrir það sem ég hafði gert. Maðurinn minn var hins vegar alveg skítslakur. Meiddi sig ekkert og var eiginlega bara alveg sama.

2.4.09

Tjaldurinn mættur á Stokkseyri

Og þvílíkur unaður að heyra í honum. Ohhh... maður kemst sko í vorfíling. Alveg þar til ég horfi út um gluggann og sé grámyglað veðrið. Uss uss aumingja Tjaldurinn.
Ég var að ræða við son minn um skólann og kennarann hans. Hann hefur ekki mjög mikið úthald í leiðinlegar samræður og þegar ég var að spyrja hann hvernig honum findist kennarinn þá sagði hann:
"Spáðu í því ef skólastjórinn myndi breytast í dreka sem kynni að spila á gítar, þá gæti hann gefið okkur hamborgara úr hamborgarabyssunni sinni"
Ég varð hálf fúl, því ég vildi tala við hann í alvörunni:
"Hvurslags er þetta drengur. Ég er að ræða við þig hérna um skólann og þú ert bara að baula eitthvað út í loftið um dreka og fullt af hamborgurum og eitthvað"!!!
Þá leit hann rólega á mig og sagði spekingslega:
" Ég talaði aldrei um fullt af hamborgurum, ég var bara að tala um eitthvað smávegis sko"

Ég ákvað að þetta væri ekki leikvöllur fyrir mig og gafst upp á alvarlegum umræðum.
Gleðilegt vor!