28.2.09

Yngsta barnið mitt er svartálfur

Ég sver það, stundum held ég að hún sé svartálfur.
Hún er ekki umskiptingur, ég er búin að prófa að flengja umskiptinginn úr henni, og hún breytist ekkert við það. Hún verður reyndar verri ef ég slæ hana á bossann, svo ég verð bara að mæla á móti svoleiðis uppeldisaðferðum.

Hún getur verið ógeðslega kjaftfor og stundum er ég alveg í vandræðum með hana þessa elsku. Til dæmis núna á mánudaginn, þá var bekkjarkvöld hjá 4. bekk.
Þar var einn krakkinn með ömmu sína með sér, og amman fer að kjá framan í þennan fallega bjána minn.
Hún er svo mikil rúsína með ljósar krullur sem standa út í loftið og þessi fallegu möndlulaga grábláu augu sín. Svo þegar hún brosir þá lýsir hún upp herbergið.
Amman er að spjalla við Doppu. Hvað heitir þú litla mín?
Doppa: Ég heiti kúkur. (muldrar það samt ofan í bringuna, svo amman heyrði ekki vel hvað hún sagði)
Ég: Hún sagðist heita Doppa
Amman: Jæja, mikið ertu nú með fallegt hár.
Doppa: Á HVAÐ ERTU AÐ GLÁPA!

Þarna stoppaði ég samtalið ósköp rólega með því að stíga milli gömlu konunnar og Doppu litlu.
Bað konuna innilega afsökunar og labbaði í burtu.

Já pabbi. Ég veit... Gott á mig!
What goes around, comes around.

20.2.09

Mundu að þurrka hjartað mitt mamma

Það sagði hún Doppa mín í gær þegar ég var að hjálpa henni upp úr baðinu.
Ég hef sérlega gaman að svona pælingum og ákvað að leiða hana aðeins áfram.
M: Hvar er hjartað þitt?
D: Það datt í baðið.
M: En af hverju settiru það í bað?
D: Það var skítugt.
M: En hvar er það núna, hvernig get ég þurrkað það?
D: Æ ég setti það hjá skúffunni inní þínu herbergi.
M: Af hverju gerðiru það?
D: Svo það yrði ekki skítugt aftur...

Ég elska litlu Doppuna mína.
Í morgun bauð hún mér í sérstakt konukaffi í leikskólanum í tilefni af konudeginum sem er á sunnudaginn.
Þegar við komum inn gaf hún mér rós sem hún hafði föndrað og bauð mér svo kaffi og konfekt.
Eftir smá stund í spjalli með hinum kellingunum kom hún til mín, tók rósina, horfði fallega á mig og brosti og sagði: Mamma, nú áttu að fara!
Ég stóð upp og þakkaði fyrir mig. Kyssti litlu ákveðnu stelpuna mína bless og var svo stolt að ég táraðist.

10.2.09

Ég er æði!!!

Takk fyrir að rúnka egóinu mínu kæru kommentendur.
Ég er búin að vera að vinna meira en venjulega þessar síðustu tvær vikur. Það er rosalega gott. Mér finnst gott að vinna úti. Mér finnst gott að hitta skemmtilegt fólk í vinnunni og mér finnst rosalega gott að koma heim í hasarinn þegar ég er BARA búin að vera að vinna allan daginn.
Svo fæ ég að vera á bakvakt, og það finnst mér sko skemmtilegt.

Hvað um það.
Þótt það sé gott að vinna, þá er ég samt ekki komin með mjög harðan skráp ennþá.
Ég tek það ofsalega nærri mér þegar fólk kemur til mín og er mjög veikt.
Ég tek það ofsalega nærri mér þegar fólk kemur til mín og er slasað.
Ég tek það ofsalega nærri mér þegar börn koma til mín slösuð, og ég tek það nærri mér þegar foreldrarnir eru áhyggjufullir.
Ég þarf að herðast.
Hver hefði nú trúað því???

7.2.09

Greinilega ekkert fyndin. Mér fannst þetta svo sniðugt.
O jæja, það eru ekki allir eins.
Allir kátir hérna. Ekkert að frétta.

2.2.09

Skógarbirna

Í þessu lífi er ég kona.
Í næsta lífi vil ég verða skógarbirna.
Ef þú ert birna færðu að leggjast í dvala, og gerir ekkert annað en að sofa í sex mánuði.
Ég gæti alveg lifað með því.

Áður en þú leggst í dvala áttu að troða þig út af mat þangað til þú stendur á gati.
Ég gæti líka alveg lifað með því.

Ef þú ert skógarbirna fæðirðu ungana þína, sem eru á stærð við hnetur, á meðan þú sefur og þegar þú vaknar ertu komin með stálpuð sjálfbjarga bangsakrútt.
Ég gæti sko alveg lifað með því.

Ef þú ert bangsamamma þá vita allir að þér er alvara. Þú abbast upp á þá sem abbast upp á ungana þína, og ef ungarnir þínir eru óþægir, þá abbastu upp á þá líka.
Ég gæti lifað með því.

Ef þú ert birna, þá BÝST maki þinni við því að þú vaknir urrandi og hann REIKNAR MEÐ því að þú sért loðin á leggjunum og með hátt hlutfall líkamsfitu.

Í næsta lífi ætla ég að vera skógarbirna.

(Kóperað án leyfis úr dagbók kvenfélagsins Jóru, Selfossi)