19.6.11

Fyrsta kraftlyftingamótið mitt

Í gær tók ég sumsé þátt í allra fyrsta kraftlyftingamótinu mínu.
Stressið var hrikalegt, því þrátt fyrir alla mína gríðarlegu skipulaxhæfileika tóxt mér ekki að koma nema einni bekkpressuæfingu að síðastliðna 3 mánuði.
Og fram að því hafði ég svo sem ekkert gert af viti, verið að lyfta 50-60 kg þyngst með mörgum endurtekningum.
En ég lét vaða, og lyfti 65 kg í fyrstu tilraun, 70 kg í annarri tilraun, og svo tóxt mér ekki að drulla 75 kg upp.
Ég var ekkert of sátt, en má heldur ekki gleyma að ég kann enga tækni og hef enga reynslu.
Næsta mót er eftir 4 vikur, og stefnan er tekin á mikla þyngdaraukningu á þeim tíma.
Þess má geta að við vorum 3 í mínum þyngdarflokk. Hinar tvær voru í bekkpressuslopp, sem er teygjuflík og gerir fólki kleift að lyfta mun meiri þyngdum. Þær lyftu 95 kg og 102,5 kg.
Ég stefni á það - án slopps!


18.6.11

STRESS

Ég svaf næstum ekkert í nótt, dreymdi ótrúlega leiðinlega drauma, svitnaði mikið, bylti mér og óskaði þess heitt að geta sofið vel.
Fyrir þremur vikum skráði ég mig nefnilega á bekkpressumót - nánar tiltekið fyrsta kraftlyftingamótið mitt.
Það væri allt í lagi ef ég væri búin að æfa eitthvað fyrir þetta - en nei - sökum mikilla anna og sérlex óskipulax er ég ekki búin að lyfta stöng í... ég veit ekki...
Ég tók bekkpressuæfingu fyrir uþb 6 vikum með mjög sterkri konu, og svo ekkert síðan.
Ég er svo svekkt út í sjálfa mig fyrir skipulaxleysið að ég er alveg að missaða.
Svo er ég búin að vera að segja við sjálfa mig að ég mæti á þetta mót alveg óæfð, og svo er annað eftir mánuð, sem ég hef þá tíma til að pumpa fyrir og sjá hvað ég get bætt mig mikið.
Ég er sterk í eðli mínu, en ef ég æfi get ég verið mjög sterk - eins og ég sannaði fyrir mér í nóvember síðastliðnum.

17.4.10

Fermingarpælingar

Fyrst ég er búin að setja tóninn og er farin að skrifa fréttaskýringar frá sjónvarpsstöðinni Omega, þá ætla ég að halda áfram með pælingarnar.
Þannig er mál með vexti að dóttir mín ætlar að láta ferma sig núna í maí. Hún ætlar að játa trú sína á Ésú Kr. Jósefssyni og staðfesta þar með skírn sína, sem var upphaflega mín hugmynd, og kviknaði þegar hún var u.þ.b. 9 mánaða.
Hún var skírð 11 mánaða, farin að labba sjálf, og var í síðum hvítum blúndukjól. Algjör rúsína.
Núna verður hún orðin 13 ára og 5 mánaða og hefur tekið sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um trú sína. Hún vill verða hluti af þjóðkirkjunni.
Amma hennar og afi eru yfirlýst ásatrúarfólk, og ég veit ekki til þess að neinn í kring um hana hafi yfir höfuð farið í kirkju í mörg ár, nema rétt til að láta skíra grislingana sína eða barnabörnin.
Við sækjum öll ásatrúarblót sem við komumst á, því okkur finnst gaman að fagna arfleifð okkar, klæða okkur upp í víkingaföt og gleðjast með öðru jafnskrýtnu og ef ekki skrýtnara fólki.
Okkur þykir vænt um gömlu hefðirnar, þar sem heill er drukkin Óðni, Þór og Freyju, náttúran er lofuð og allar vættir.
Að auki höfum við ýkt gaman að gamaldags rímum og tónlist.
Ásatrúarmenn predika aldrei neitt, en þeir trúa á að hver maður eigi að bera ábyrgð á gerðum sínum og orðum og að við eigum að bera virðingu fyrir öllu lífi. Í lögum félaxins segir að allir megi iðka sína trú á sínum eigin forsendum, svo framarlega sem það brýtur ekki landslög. Einfalt og þægilegt ekki satt?
Ég er búin að ræða trúmál mikið við dóttur mína, sem er einkar staðföst.
Hún hefur fundið fyrir Guði.
Ésú Kr. Jósefsson hefur snert hjarta hennar.
Ésú var góður maður. Hann elskaði alla og dæmdi engan. Hann var góður við börn og naut þess að segja þeim sögur. Ésú hafði stórt verkefni í lífinu og hann stóð sig sérlega vel.
Ég hef fulla trú á því að hann hafi predikað að hver og einn beri ábyrgð á eigin gerðum og orðum, drenglyndi og heiðarleika.

Mér er svo sem slétt sama á hvað dóttir mín trúir.
Ef hún getur lært og lifað eftir þeim gildum sem bæði Ésú og hinn heiðni siður predikar, þá er ég sátt.
Ég ætla að halda henni rosalegan fermingarfagnað og bjóða öllum nánustu ættingjunum og öllum bestu vinunum.
Ekki bara af því að það er hefðin, þótt hefðin sé skemmtileg, heldur af því að sjálfstæða litla trippið mitt tók upplýsta og sjálfstæða ákvörðun um að verða góð manneskja og af því er ég stolt.


2.4.10

Mennirnir eru víst ekki komnir af öpum...

Ég horfði í forvitni minni á hluta úr þætti á Omega í gær, þar sem menn, frelsaðir af Drottni vorum Ésú Kristi, voru að býsnast yfir þróunarkenningu Darwins.
Guð skapaði heiminn sögðu mennirnir, og við erum ekki þróaðar verur, heldur vorum við sköpuð nákvæmlega svona sem Adam og Eva.
Menn þessir drógu fram ýmis ummæli vísindamanna allt frá árinu 1920, þar sem þeir lýstu vanþóknun sinni á þróunarkenningu þessa skrýtna Darwins. Þeir sögðu að þetta væri plat, og brandari aldarinnar.
Þeir gengu meira að segja svo langt í að reyna að sanna fyrir hinum kristna áhorfanda að mennirnir væru ekki skyldir öpum, að þeir fóru út að borða með órangútan.
Órangútaninn kunni að halda á gaffli, en hann borðaði af diskum hinna og nagaði borðdúkinn þegar honum fór að leiðast! Þar af leiðir að mennirnir þróuðust ekki af öpum, heldur voru skapaðir svona af Guði, með alla borðsiði upp á 10.
Ég gafst upp á þættinum þegar mennirnir fóru að hringja í flugfélögin til að bóka flugfar fyrir sig og "ættingja" sinn, en máttu svo ekki fara með órangútan á almennt farrými. Ef þeir eru svona mikið skyldir okkur, af hverju mega þeir þá ekki fljúga við hlið okkar í flugvél. HA?!!

27.3.10

Ég veit ALLT í heimi

Ég var að spjalla við hana Doppu mína einu sinni sem oftar þegar hún tilkynnti mér það að hún vissi allt í heimi.
Mamma: Er það?
Doppa: Já ALLT!
Mamma: og veistu hvað himininn er hár, og hvernig maður bakar brauð og bara allt?
Doppa: Jaaaa... kannski ekki AAALLT, en næstum allt.
Mamma: Eins og hvað?
Doppa: Ég kann alla stafina, og líka mína stafi. Ég kann táknið mitt á leikskólanum og tákn allra á leikskólanum. Ég kann að teikna fínar myndir og búa mér til eggjabrauð!!!
Mamma: Já ég sé það núna. Þú kannt næstum allt! *bráðn*

25.3.10

Hvað er þetta rauða?

Við vorum að keyra uppá Selfoss um daginn og á leiðinni upp að afleggjara segir Doppa mín:
Mamma, mamma, hvað er þetta rauða sem ég sé þarna?
Henni var mikið niðri fyrir, og við strákarnir sáum ekkert rautt.
Hún vildi að við snerum við til að kíkja, en það var ekki tími til þess þarna, svo ég sagði henni að við myndum tékka á þessu á leiðinni heim.
Svo skutlaði ég á æfingar og verslaði og græjaði og gerði alveg heillengi.
Á leiðinni heim sat hún sömu megin í bílnum og benti aftur:
Hvað er þetta rauða?
Ég sá ekkert og núna benti hún líka hinu megin við veginn.
Ég sagðist bara ekkert vita, en daman gaf sig ekki. Ég hafði jú saxt ætla að líta á málið á heimleiðinni.
Hún sat í aftursætinu og heimtaði að ég sneri við til að athuga málið.
Ég keyrði niðrað brú og sneri við þar til að finna þetta rauða, sem átti heima beggja vegna vegarins.
Við strákarnir leituðum og skildum ekkert hvað hún var að meina.
Þá benti hún og ég áttaði mig á því að hún var að benda á mórauða pollana hjá hrossunum.
Hún vildi bara vita afhverju vatnið væri rautt hérna en blátt annars staðar...