30.12.08

Júdó

Við hjónin fórum í gær til Reykjavíkur.
Við fengum dágóða peningaslummu í jólagjöf og ákváðum að nota peningana til að kaupa hinar langþráðu júdódýnur í stofuna.
Þær eru geggjaðar. Þetta er algjör draumur.
Þið bara verðið að koma og veltast um á stofugólfinu hjá mér.
Svo fáiði kannski kaffi á eftir.

24.12.08

Gleðileg jól

Gleðileg jól allir saman. Njótið hátíðarinnar í botn.

22.12.08

Það besta við jólin... SKATAN!

Hún er á morgun blessuð skatan. Það finnst mér betra að éta en jólasteikin sjálf.
Það er líka ógeðslega kósý að setjast við kvöldmatinn á Þorláksmessu, slaka á og njóta þess að vera búinn að koma öllum jólapökkum og öllum jólakortum á sinn stað.
Og TROÐA í sig.
Mmmmmm.....

16.12.08

Karlmenn...

Las grein þar sem sagt er að konur vilji karlmenn eins og Edward Cullen í nýju myndinni Twiligt, en sitji uppi með gaura eins og Peter Griffin úr þáttunum um Familyguy.

Edward er guðdómlega falleg vampíra sem hefur góðan smekk á tónlist og listum. Kurteis og dásamlegur með eindæmum. Veit hvernig á að koma fram við drottningar. (eins og okkur sko...) En Peter er spikfeitur, síprumpandi, dauðvitlaus kall. Hann fær ömurlegar hugmyndir og framkvæmir þær allar. Hefur ekki hugmynd um hvað konur vilja, og er í raun alveg skítsama.

Ég las einhvern tímann aðra grein fyrir mörgum árum. Þar var því haldið fram að konur vildu eignast börn með mönnum sem litu út eins og Arnold Schwarzenegger (eins og hann var í gamla daga), en ala þau upp með mönnum sem litu út eins og Hugh Grant.
Ég veit nú ekki hvað er til í þessu, en mér finnst þetta rosalega skemmtileg pæling.

Við viljum láta sterka og stóra stráka taka okkur, en þegar til lengri tíma litið, þá viljum við bara taka þá!

Ekki satt?





14.12.08

Þrjú ár síðan Doppa fæddist

Fljótur að líða tíminn.
Segir maður það ekki alltaf þegar maður horfir til baka og huxar um eitthvað skemmtilegt? Líklega er tíminn barasta fljótastur að líða þegar maður huxar um hann seinna.
Stundum líður tíminn minn ofsalega hratt. Alltaf þegar þarf að gera eitthvað til dæmis. Þá er hann alltaf búinn áður en ÉG er búin.
Stundum líður hann lúshægt. Bara til dæmis þegar Gamli er ALVEG að fara að koma heim.
En svona er þetta, og þess vegna er það líklega sem fólk segir að tíminn sé afstæður. Af því hann virðist aldrei vera eins.
(Eða þegar kellingar vilja vera yngri en þær eru...)

Allavega. Hún fæddist fyrir þremur árum þessi elska.
Hún var fljót að koma sér út þegar henni loxins þóknaðist að byrja.
Hún er mjög sjálfstæð, var þá og er enn. Algjört kjarnorkukvendi.
Gat gert fólk orðlaust áður en hún talaði almennilega.
Gat hlaupið áður en hún stóð.
...nei, ekki alveg.
En hún er frábær. Eins og hinir grísirnir mínir allir.
Ég er rosalega ánægð með þau, þessar elskur.
Hér var vinum og vandamönnum boðið í gúllassúpu og heimabakað brauð að hætti hússins, og afar afar bleika kremköku, með miklum þriggjáraskreytingum.
Gaman að hitta allt þetta fólk.
Gaman að vera til.
Gott að fara uppí á eftir.

13.12.08

Flottasta júdófjölskyldan í heiminum!

Gormur 7 ára fékk brons verðlaun. Hann var í fjórða sæti í sínum þyngdarflokki 10 ára og yngri. Hann sigraði tvær glímur og tapaði tveimur.
Stormur 9 ára fékk gull verðlaun. Hann sigraði allar glímur í sínum þyngdarflokki barna 11-12 ára.
Ormur 12 ára fékk brons verðlaun. Hún var í þriðja sæti í sínum þyngdarflokki 11-14 ára. Hún var eina stelpan að vanda, og lét strákana sko svo sannarlega hafa fyrir sér. Hún sigraði tvær glímur og tapaði tveimur.
Gamlinn fékk bronsverðlaun. Hann glímdi fjórar glímur og sigraði eina. Hann er bara búinn að fara á 4 æfingar síðan guð veit hvenær, svo ég er rosa stolt.
Ég er svo stolt að ég er um það bil að rifna.

10.12.08

Ég sá mömmu kyssa jólasvein

Ég fór með 7. bekk í bíó í gær.
Myndin var Twilight og hún var ofsalega rómó og skemmtileg.
Þetta eru ótrúlega skemmtilegir krakkar, og gaman að rugla svoldið í þeim.

Júdómót á morgun, og þar munu allir keppa nema við Doppa.
Jafnvel gamlinn ætlar að munda júdógallann og taka á nokkrum strákormum þarna.
Það verður gaman að sjá.

Svo er bara ammili um helgina. Doppa jólastelpa verður 3 ára.
Hún hlakkar mest til jólanna af öllum. Syngur jólalög stanslaust og brosir út að eyrum allan sólarhringinn.
Já jafnvel þegar pabbi hennar var að hátta hana í gærkvöldi. Þá var hún steinsofnuð, litli anginn, og byrjaði að syngja: Ég sá mömmu kyssa jólasvein.

8.12.08

Ekki er hægt að hringja úr þessu númeri

...hananú!
Símavesen okkar ætlar barasta loxins að taka einhvern enda.
Við fengum símtal frá símanum, og ákváðum að fyrirgefa þeim 11 ára gamlar syndir og synda bara beint aftur í fangið á þeim með ALLAN PAKKANN, eins og það er kynnt.
Eftir gloríur mínar og TALs nú í haust, vorum við komin úr sæmilegustu þjónustu við vodafone í það að vera með gsm símana hjá TAL, netið hjá Vodafone og heimalínuna hjá Símanum.
Engin fríðindi, bara kostnaður.
Algjört rugl.
Núna er TAL búið að loka þjónustu sinni á gsm símana, en síminn ekki búinn að senda okkur kortin ennþá.
Svo ekki ert hægt að hringja úr eða í gsm síma.
Og það verður bara að segjast eins og er, að manni finnst þetta bara drullu óþægilegt.
Svona vægast sagt.

5.12.08

Ég reyndi að drepa kettling

Eins og þú veist þá er ég með tvo hvolpa á heimilinu. Einn blandaðan rakka íslenskan og labrador, sem er 9 mánaða, og svo hreina labrador tík sem er 3 mánaða.
Fyrir átti ég tvær læður sem eru eins árs núna í desember.
Önnur læðan fann náttúruna um leið og við fluttum úr bænum, og hún gaut tveimur kettlingum í ágúst. Nákvæmlega 3 mánuðum síðar gaut hún þremur í viðbót.
Svaka dugnaður í henni blessaðri. Þeir fæddust í síðustu viku.

Við vorum að vinna niðri í forstofu, og ég sá að hún var að fara að gjóta.
Ég fór því með hana upp í kassann sem ég var búin að finna fyrir hana.
Þar var auðvitað orðið rusl í, alls konar lök og drasl. Ég tók það og kastaði því í næstu hillu.
Þá trylltist læðan alveg og fór að róta í ruslinu.
Þegar ég fór að athuga málið, þá var hún búin að gjóta í tuskuhrúgunni, og ég tók kettlinginn með öllu saman og kastaði honum út í horn.

Það var óvart.

Hin læðan er komin að goti líka. Þetta verða skemmtileg jól.
Fullt fullt fullt fullt af dýrum.
Vá hvað ég er heppin!!!

4.12.08

Það er allt á fullu alls staðar

Árlegur kleinu- og flatkökubaxtur fjölskyldunnar verður á laugardaginn í mínu eldhúsi. Ég hlakka rosalega til, því mér finnst svo gaman að hittast svona.
Mér finnst líka gaman að eiga svo stórt eldhús að jólabaxtur heillar fjölskyldu geti farið þar fram.
Í gær var ég að sparstla inn í gluggana í eldhúsinu og stofunni, svo það á allt að vera orðið rosalega fínt á laugardaginn. Hver veit nema það verði komin jólasería???