19.1.10

Unglingur - unglingari - unglingastur

Ég er þrjátíu ára, ung og falleg, stór og sterk, dugleg og drífandi.
Ja, reyndar alveg næstum 31.

Að vera næstum 31 árs hlýtur að þýða að ég sé orðin þroskuð á margan máta.
Ég er jú, búin að gera ýmislegt á þessum 30 og hálfa ári.
Ég er búin að læra að vera nuddari, háskólamennta mig, gifta mig, byggja heilt einbýlishús og margt fleira sem er þó aðeins minna í sniðum, en ekki síður mótandi.

Þegar maður er þrjátíu og hálfs árs hefur maður öðlast lífsreynslu og upplifað hluti sem gera mann í stakk búinn til að taka á mörgum og mismunandi hlutum.

Á heimilinu mínu kúra í rúmunum sínum fjögur börn.
Þau eru öll mjög góð og ljúf og yndisleg á svo margan hátt.

Ég er til dæmis búin að læra margt um börn frá því að ég var sautján, búin að þroskast mikið á því sviði og tel mig vera í stakk búna til að takast á við nánast hvað sem er sem getur bankað upp á í barnauppeldinu.
Ég veit upp á hár hvernig er best að fóðra þau og þvo þau og svæfa þau.
Ég veit nákvæmlega hvað hreyfing er mikilvæg og útivera.
Ég kann fullt af lögum og leikjum sem þroska og gleðja börn.
Ég á endalaust mikið af bókum og sögum til að lesa og hlusta á.

En svo kemur hormónaflæði sem stundum er nefnt gelgjuskeiðið eða unglingaveikin.
Og frúin lífsreynda sem kunni svo margt og gat svo til allt...

Hvar í lífinu öðlast maður reynslu í að vera talinn fáviti, gamaldax furðufugl?
Ég er meira að segja ekki fyndin lengur... ja að minnsta kosti ekki þegar vinirnir eru nálægt.

Hvar eignast maður félagsfærni sem kennir manni að vera akkúrat, þegar kemur að samskiptum manns við unglinga?
Maður má ekki segja NEITT óviðeigandi, ekki klæða sig of mikið og ekki of lítið.
Maður má ekki nota ákveðin orð í viðurvist vinanna, bara kúl orð.
Hvar lærir maður til dæmis orð sem eru kúl nú til dax?

Þúst...vissir þú til dæmis að það er ekki lengur kúl að segja grúví, hipp, inn, je og gimmí fæv?

Eins gott að vera vel vakandi, því að kúl orðin breytast alveg yfir nótt.
Gimmí fæv!!! MAMMA!!!
Þúrt svo... díses!!!

Ekki kúl

Og samt eru mín börn alls ekki svo slæm og skammst sín ekkert svo mikið fyrir mig.
Ég þarf bara að reyna að vera aðeins penni og hvað sem ég geri...Alls, alls ekki prumpa!!!

16.1.10

Gítar

Það hefur verið draumurinn minn frá því ég var unglingur að geta spilað vinnukonugripin á gítar, því ég elska að syngja, og það er svo frábært að geta gripið í gítarinn með.

Um jólin gaf minn elskulegi eiginmaður mér gítar. Ég fékk frábæran gítar og það fylgdi með smá diskur fyrir algjöra byrjendur til að geta byrjað að prófa.
Ég sat hérna áðan og lærði þrjá tóna.
Þegar ég var búin að æfa mig helling kemur svona afsakið hlé skjár í tölvunni, en á honum stóð: "You should rest now, your left fingers are probably getting sore"
Og já, það var sko satt. Bendiputtinn minn var orðinn voða aumur, en ég get spilað gamla nóa. (að vísu bara með einum tón) En ég er svo stolt!!!
Ég ætla sko að halda áfram á morgun.
Hver veit, kannski verð ég búin að læra eitt eða tvö lög um næstu jól.

10.1.10

Það er auðvelt að vera latur

og telja sjálfum sér trú um að það taki of langan tíma að byrja að gera hitt og þetta sem þarf að gera á heimilinu.
Ég er á bakvakt þessa helgi og þess vegna eru ótrúlega margir hlutir sem ég bara hef alls ekki nennu til að byrja á. Það gæti mögulega, samt ekki mjög svo líklega, komið útkall akkúrat þegar ég er í viðkvæmu verkefni... eða ekki!

Í raun og veru er þetta bara bull og fyrirsláttur.
Ég er leið, því þetta er fyrsta helgin án eiginmannsins. Mér finnst það bara alltaf ótrúlega erfið helgi. Ég verð ónóg sjálfri mér og eirðarlaus, hef mig ekki í það sem þarf að gera.
En að viðurkenna svoleiðis fyrir sjálfum sér er ótrúleg þraut.

Hvernig er hægt að vera svona feiminn við sjálfan sig?