23.12.09

Gleðileg jól

Nú hækkar sólin og dagurinn lengist smátt og smátt, það munar bara níu sekúndum á deginum í dag miðað við gærdaginn en ég finn muninn. Ég meina það, ég finn muninn.
Í dag er þorláksmessa og þá er borðuð þessi kæsta skata sem er uppáhaldsmaturinn minn í öllum heila heiminum. Á aðfangadag ætlum við að hafa humarsúpu og rjúpur og hreindýr með öllu tilheyrandi og það er alveg næstuppáhaldsmaturinn minn.
Ég get svo varla beðið eftir að gefa allar gjafirnar sem ég er búin að vanda mig svo við að velja og búa til.
Yndislegur tími

16.12.09

Allt að koma

Hérna er allt að róast í bili. Mikið djöfull er ég fegin.
Við erum ofsalega slök yfir þessum jólaundirbúningi sem allir eru að tapa sér yfir. Ég er ekki búin að skrifa jólakortin, ekki búin að pakka inn gjöfum og ekki einu sinni búin að ákveða þær allar.
Hérna er búið að taka upp nokkra jólakalla og baka fjórar uppskriftir af smákökum, sem eru allar búnar.
Ég er búin að finna þrjár uppskriftir af hveitilausum smákökum sem ég ætla að baka, og það verður gaman.
Gamli minn kemur heim á laugardaginn og er planið að vera búin að koma hans jólagjöf í réttan farveg fyrir þann tíma, enda er leyndin í kring um hana alveg suddaleg.
Annars er hláka hjá honum og þess vegna alveg ómögulegt að komast í næsta bæ. Snjósleðarnir duga skammt þegar heiðin er auð.
En hann taldi í gær að hann þyrfti bara að labba rúmlega 30 km og synda 300 metra á miðri leiðinni til að komast á fæti.
Ég hef trú á því að ég kaupi bara þyrlu ef þetta verður eitthvað vesen. Þið hin fáið þá bara minni jólapakka í staðinn.
Ég þarf að fá hann heim.

9.12.09

Þar sem ég veit að dóttir mín les ekki bloggið mitt

(enda er ég leiðinlegasta manneskja sem til er í öllum heila heiminum)
verð ég bara að segja, að ég hélt að ég hefði harðan skráp... en mikið ósköp getur þessi þrettán ára unglingur sært mig mikið.
Ég bara gæti grátið
Þetta er verra en ungabarn með eyrnabólgu. Maður getur ekkert gert við eyrnabólgunni, en maður má þó allavega knúsa þau og sýna þeim ást og umhyggju.
Við gelgju-vanlíðaninni er ekkert hægt að gera heldur, og maður má ekki snerta eða segja neitt, því guð forði manni frá því að segja eitthvað vitlaust!!!