25.6.09

Á morgun

Þegar ég hitti fólk, bara hvaða fólk sem er: fjölskyldu, góða vini, vini, kunningja, nágranna eða bara fólk í heita pottinum, þá er það eina sem fólki dettur í hug að spyrja mig:
Hvenær kemur svo kallinn heim?
Hann kemur á morgun.
ÉG HLAKKA TIL!!!

23.6.09

Sundröfl

Við Doppa erum á sundnámskeiði á morgnana. Þetta er tíu tíma námskeið, og við skemmtum okkur mjög vel.
Með henni í hóp eru krakkar fæddir 2003, 2004 og 2005. Við erum bara þrjár mömmur sem þurfa að fara með börnunum oní, hin eru orðin nógu stór til að vera ein.
Hinar mömmurnar hins vegar margar hverjar eru meira með börnunum sínum og hjálpa þeim meira heldur en við sem förum sjálfar ofaní laug.
Þær standa í öllum fötunum (allar saman í hóp) og fylgjast með ungunum sínum í sturtu (og okkur hinum líka).
Þær tala stanslaust hver í kapp við aðra við sitt barn: Farðu undir sturtuna, þvoðu þér betur, fáðu þér sápu, bleyttu hárið, farðu betur undir sturtuna, horfðu upp, farðu í sundbolinn/skýluna, lagaðu þig til, skolaðu af þér sápuna, skrúfaðu fyrir sturtuna, lagaðu sundfötin, farðu út í pott.
Þetta er alveg stanslaust, endalaust og þær tala hátt og kalla nöfn barnanna endalaust til að þau heyri að það sé verið að tala við þau.
Ég er farin að mæta eins seint og ég get til að losna við þær, og hleyp uppúr langfyrst til að verða á undan, því ekki skánar það eftir tímann, þegar öll þessi börn þurfa að þvo sér með sjampó og hárnæringu með tilheyrandi köllum og aðstoð. Siggi horfðu upp, upp, upp, Siggi, upp! Horfðu upp í sturtuna svo sjampóið skolist úr, Siggi, upp, eins og upp í himininn, sjáðu hvar vatnið kemur. AAAAAAAAAA!!! Mig langar að snúa þær úr!!!Þurfa þau öll að nota sjampó á hverjum degi!!!
Ég skil hreinlega ekki af hverju þær fara bara ekki með krakkalufsunum í sturtuna. Þær eru óþolandi.
Sem betur fer er Doppa mín mjög mikið til í að vera á undan og svoleiðis, þannig að ég þarf ekki að standa í sturtunni með þeim, eða það sem verra er, bíða eftir sturtu.
Ég þoli ekki þegar börn fá ekki að reyna sjálf, og ég þoli ekki að vera í sturtu með fimm klæddum konum!

21.6.09

Annað 17. júní blogg með mun minna þunglyndisrausi

Ég var að lesa blogg hjá vinkonu minni. Hún er orðin stór, þ.e. búin að mennta sig og farin að vinna og komin yfir þrjátíu árin (held ég). Sem sagt alveg eins og ég.
Munurinn er bara að hún er ekki farin að unga út ennþá, en ég er komin með börn.
Hún lenti í heljarinnar krísu með það hvað hún ætti að gera á 17. júní. Ætlaði fyrst að njóta þess að gera ekkert, og hafa það kósý,en endaði svo í pirringi yfir því að vera ekki að gera neitt á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Hjá mér er þetta mun einfaldara.
Ég verð að fara eitthvað með þessar elskur.
Ég fór á skemmtun hjá kvenfélaginu og þar fengu börnin fríar gasblöðrur og risasleikjó. Dagskráin samanstóð af fjallkonu með ljóðaupplestur, leynigesti (sem ég vissi ekkert um, því ég er nýflutt á svæðið) og töframanni fyrir börnin.
Þegar dagskráin var búin fóru börnin fram með töframanninum og fengu blöðrudýr hjá honum.
Kvenfélagið bauð svo upp á kaffi og köku og prinspóló og svala.
Þetta er mjög stutt og laggott hjá þeim og allt frítt.
Þetta er kannski ekki skemmtilegasta skemmtun í öllum alheiminum, en ég hitti nokkra skemmtilega kunningja og fékk mér kaffi með þeim, krakkarnir skemmtu sér vel, þetta var frítt og við fórum heim að slaka á eftir þetta. Við krítuðum svo út alla stéttina og fórum í hjólatúr.
Dásamlegur 17. júní. Og ég setti ekki upp sorgarbandið. Ég ákvað að vera dönnuð þennan dag.

17.6.09

17. júní 2009 - Lýðveldið Ísland 65 ára

Spilling
Það er það sem ég upplifi þegar ég les blöðin og hlusta á fréttirnar á okkar dásamlega fallega landi.
Hvert sem ég lít er einhver að svíkja eða stela eða bara gera það sem "stóð hvergi að væri bannað", þótt það væri sjúklega siðlaust.
Og á hinum endanum sé ég fólkið sem er bara venjulegt og gerir sitt allra besta á meðan róðurinn verður þyngri og þyngri.
Mér finnst þetta svo sorglegt að það eru ekki til orð til að lýsa því.
Skattarnir hækka, þjónustan minnkar, vöruverð hækkar.
Við stærum okkur af góðu mennta- og heilbrigðiskerfi, en núna þurfum við að sætta okkur við eitthvað minna. Enginn veit hversu mikið minna. Enginn veit hvernig þetta verður.
Það er það sem er svo óþægilegt.
Við höfum ekki hugmynd um hversu slæmt eða ekki slæmt ástandið er eða verður.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig næsta ár verður, hef ég vinnu, hef ég þak yfir höfuðið.
Sorry þunglynt blogg. Maður getur bara ekki annað en látið þetta "ástand" hafa áhrif á sig.

3.6.09

Ég þori ekki annað en að taka það fram

að strák pjakkarnir voru bara að fíflast, ekkert dónó á ferðinni í tjaldinu. En þeir snarhéldu sér saman þegar ég sagði þeim að þeir vildu ekki upplifa að sjá mig reiða, og ég væri alveg að verðaða.

Útilegusaga

Útilegan heppnaðist gríðarvel. Að vísu komu ekki nema 12 ungmenni af 28, en það var bara betra fyrir mig og hina mömmuna sem gisti.
Ungmennin hjóluðu á staðinn, og tók það um klukkutíma. Ég keyrði á eftir og hirti þau uppí sem gáfust upp eða voru á slæmum reiðskjótum. Þau voru samtals þrjú af þessum tólf.
Dagurinn fór svo í leiki og skemmtun.
Um kvöldið var reglan að fara inn í tjald um miðnætti og þar mátti svo spjalla að vild, ef það var á lágum nótum.
Þrír strákar úr 7. bekk lágu saman í tjaldi og um eitt leytið heyrði ég þvílíkar stunur úr tjaldinu þeirra. Vegna skemmtilegrar staðsetningar tjaldsvæðisins milli tveggja stórra húsa bergmáluðu stunurnar um alla sveitina, og þar sem þessi elska er enn frekar mjóróma hljómaði þetta alveg eins og sena úr örgustu klámmynd.
Um nóttina var mér ís ís ískalt, enda var ég ein í tjaldi. Nefið á mér fraust næstum af, en mér tókst samt að sofa um það bil frá því að síðasta liðið fór að hrjóta, sem var um þrjú, og til hálfátta.
Þá var sólin farin að skína, svo ég renndi niður tjaldinu, skreið út í svefnpokanum mínum og lagðist í grasið. Þar dottaði ég aðeins áfram þar til krakkarnir fóru að skríða út úr tjöldunum sínum og trufla mig.
Þar sem mín hvíta húð þolir ekki mjög mikið magn af geislum gula fíflsins, uppskar ég sólbruna í andlitinu.
Þegar við komum heim aftur mættum við beint í vorhátíð í skólanum. Það voru margir sem bentu á mig og brostu. Enda var ég frekar flott.
Sólbrunnin, dauðþreytt og með frekar beyglað hairdú frá deginum áður, að ná mér í eina pulsu með öllu.

1.6.09

Foreldraraunir

Þú heldur örugglega að ég sé að fara að kvarta yfir börnunum mínum.
En það er ekki svo gott. Ég er nokkuð ánægð með þau.
Hins vegar er ég ekki svo ánægð með foreldra. Ég hef verið í foreldrastarfi hérna síðan í haust. Það hefur verið algjör höfuðverkur að fá foreldrana í þessu plássi að mæta á nokkurn skapaðan hlut sem heitir fundur eða skipulagning eða þess háttar.
Núna er til dæmis planið að fara í útilegu með 7. og 8. bekk. Allt í lagi, þar sem tímarnir eru eins og þeir eru, þá mega kennarar ekki taka neina yfirvinnu, svo þeir fara kl. 16, og koma aftur morguninn eftir. Þá þurfa foreldrar að koma og hjálpa til og einhverjir að gista. Ég boðaði til fundar, og við vorum tvær sem mættum á hann. Hún lofaði að gista og ég fékk símalista til að hringja í alla aðra foreldra. Af tæplega 40 börnum, fékk ég 3 mömmur til að koma og hjálpa við að tjalda og grilla og engan til að gista.
Ein mamman sagði mér að henni þætti alveg nóg að láta barnið sitt læra heima, henni fyndist hún ekki þurfa að gera neitt meira fyrir þennan skóla.
Foreldrar mínir eru ekki svona fólk. Þau fóru alltaf í allar ferðir og voru fararstjórar og fylgdarlið í nánast öllum ferðum sem ég fór í á vegum skóla eða íþróttafélags.
Þau tóku því Doppu litlu með sér í sumarbústaðarferð um helgina. (Takk elsku ma og pa, þið eruð frábær)
Strákarnir fá að gista hjá vinkonu minni sem á krakka í skólanum.
Og ég fer í útileguna, að sjálfsögðu. Afsakanir á borð við: ég á svo mörg önnur börn heima, ég hrýt, ég kann ekki að hjóla, ég er með gigt, ég á ekki tjald og þess háttar eiga því ekki við mig.
Enda er ég hörkutól! Og afar hlynnt miklu og góðu foreldrastarfi. Og elska únglinga.
Ég komst að því áðan að ég hlakka barasta til.
Og vegna fyrri kynna minna af þessum foreldraelskum ætla ég að taka nokkur auka stykki af húfum, vettlingum, síðum nærbrókum, ullarbolum, teppum, svefnpokum og þess háttar, auk þess að vera með ríkulega smurt nesti til að ég geti gefið með mér.
Óskið mér góðrar útilegu.