28.2.08

Tvær vikur í dag

Þar til ég skelli mér til köben að sækja kallinn.
Það væri lygi ef ég segðist ekki hlakka til.
Annars kyngir niður snjó hérna í Borginni. Alltaf gaman að hafa smá snjó. Við Doppa löbbum á leikskólann á hverjum degi. Henni finnst svo gaman að láta draga sig á stýrissleðanum. Skemmtilegast er auðvitað að stíga á bremsurnar. Þá sný ég mér við og segi henni að hætta. Það finnst henni fyndnast. Hún er rosalega stríðin þetta litla skott. Sver sig alveg í móðurættina.
Æ þetta var hundleiðinlegt röfl. Bara nennti ekki að skrá niðurstöðurnar úr mælingunum og setja upp í línurit. Best að koma sér að verki.

26.2.08

Nóg komið af monti í bili

Það er enda ekki hollt að vera að monta sig mikið.
Hérna gengur allt svona líka stór-vel. Allir eru að standa sig vel og vinna saman. Í dag byrjaði ég á mælingunum fyrir rannsóknina mína. Við sóttum Doppu í leikskólann, og svo fóru eldri börnin mín blíðu heim með hana og allir hjálpuðust að. Afi Steinríkur kom svo og sá um að drengirnir kæmust á júdóæfingu og í afmælisveislu. Stelpurnar voru eftir heima, og þegar ég kom heim eftir aldeilis vel heppnaðar mælingar var eldri daman farin að huga að matnum. Þvílík dýrð.
Já, og svo er bara farið að styttast í húsmæðraorlofið mitt góða. Þegar við erum að nefna tölur sem eru undir tveimur tugum, þá finnst okkur það nú bara ekki neitt. Bútur úr köku, ef þú skilur hvað ég meina.
Þá skal nú slakað á. Já maður minn...

Þótt ein vinkona mín hafi nú sínar efasemdir...
En það kemur þér ekkert við.
Heil og sæl að sinni.

21.2.08

Er að massetta!

Ég var að fá einkunn úr siðfræði. Ég fékk 9,5! Ég er ógeðslega montin með mig. Fékk líka 9 í tölfræði um daginn. Önnin lofar góðu. Annars er allt í roligheden eins og er. Núna eru bara 3 vikur þar til ég fer út að knúsa kallinn minn. Hlakka til þess.
Hérna er smá gys og gaman af honum Gormi mínum sem er 6 ára:
Við fengum lánað á bókasafninu útvarpsleikritið Sitji guðs englar. Hann hefur mjög gaman af því að hlusta á það. Um daginn spurði ég hann hvað hann vildi hlusta á, og hann sagði: Sykursins engla auðvitað!
Um daginn var ég með Egils Kristal með poppinu og myndinni. Ég bauð honum í glas, og hann sagði: Nehei! Ég er sko steinhættur að drekka svona!! Ég spurði hann af hverju, og þá sagði hann: Það sést þegar maður hefur drukkið svona, ég sá það í sjónvarpinu...
(auglýsingin í imbanum segir... það sést hverjir drekka Egils kristal)
Snilld og laggó

18.2.08

Typical skate

Ég á 9 ára brúðkaupsafmæli í dag... eða við hjónin sko!
Í tilefni dagsins eldaði ég uppáhaldsmatinn minn. Skötu.
Hef nú alltaf haldið mig við þorláksmessuna, en ég mátti til þegar ég sá þessa dýrindis bita í fiskbúðinni. Síðustu ár höfum við systkinin hist með foreldrunum heima hjá stóra bróður til að gera skötunni skil. Það er góður dagur.
Pabbi segir alltaf: typical skate, svona í Kristján-heiti-ég-Ólafsson-stíl. Hann segir líka alltaf spakk og hagetti þegar hakk og spaghetti er í matinn. Steikon og begg þegar er beikon og egg. Hann segir baríus og kaktus þegar hann meinar karíus og baktus. Við tvö erum held ég þau einu sem finnst þetta fyndið. En hvað um það.
Pabbi var staddur í bænum í dag, svo ég ákvað að bjóða honum í skötuna.
Sendi honum því sms:
Skeit í kvöldmatinn. Þú ert velkominn.
Mér fannst ég hrikalega fyndin. Alveg þangað til hann kom og ég komst að því að hann hafði ekki fattað að það var skata...

Bara að læra

Ég er bara að lesa og lesa, fræðigreinar og aftur fræðigreinar. Það pirrar mig að ég er ekki komin með neinn brennandi áhuga á efninu. Er alveg með þetta á heilanum, en finnst það bara ekki svo áhugavert. Já það pirrar mig ekki bara, heldur stressar það mig líka. Ég er hrædd um að mér gangi ekki vel að verja verkefnið, ef ég veit ekki ALLT um málið.

Æ whatever. Þetta verður kannski skemmtilegra þegar ég fer að setja eitthvað saman úr öllum þessum fræðigreinum. Og kannski verður gaman þegar ég fer að mæla og reyna að finna eitthvað út úr öllum mælingunum. Eitthvað merkilegt kannski. Stefni á að byrja mælingar í næstu viku, og ég hlakka bara dáldið til. Það verður gaman að gera eitthvað annað en að sitja klukkutíma eftir klukkutíma með orðabók. Iss iss.

Annars var júdómót um helgina. Orminum mínum gekk alveg ágætlega. Hún glímdi við 3 stráka og tók 3. sætið. Mjög flott hjá henni. Engin önnur stelpa glímdi í strákaflokki. Ég var mjög stolt af henni fyrir það.
Allir aðrir eru eldhressir að vanda.
Líka ég.

12.2.08

HÆBB

Ég var rétt í þessu að panta mér miða til köben.
Kallinn minn kemur heim í mars, og ætlum við að eyða saman helginni í Kaupmannahöfn áður en hann kemur heim.
Ég hlakka sko til. Ekkert smá.
Svo spillir það ekkert fyrir að ég elska höfuðborg Danmerkur. Mér finnst æðislegt að koma þangað.

11.2.08

Ég fór í bíó um helgina.
Myndin var um Ástrík og Steinrík. Tvo af mínum uppáhalds.
Sesar var mjög sjálfumglaður eins og venjulega og sagði þessar frábæru setningar fyrir framan spegilinn, sem ég er ennþá að muldra öðru hverju:
"Sesar eldist ekki... hann þroskast!"
"Hár Sesars gránar ekki... það lýsist!"

9.2.08

Ungamamma tekur leiðbeiningum

Margir búnir að kvarta yfir því að ekki sé hægt að kommenta, og núna síðast er ekki einu sinni hægt að lesa komment sem búið er að skrifa.
Svo ég færði mig. Ætlaði á bloggar.is, en síðan lá niðri.
Þar sem ég er með eindæmum þolinmóð kona, þá fór ég bara beint á næstu síðu.
Vonandi verður þetta betra hérna. Ég er drullufúl yfir þessu, því mér fannst hin síðan svo falleg. Hrmpf... eins og andrés önd myndi orða það.