29.11.09

Surtshellir

Það var hellirinn sem ég fór að skoða með 3/4 barna minna og vinkonu, frænku, bróður og tilvonandi mágkonu.
Við vorum með lítil vasaljós sem lýstu mjög takmarkað, og þótt ég hafi ekki farið í hellaskoðun með massaða kastara, þá er ég hundrað prósent viss um það að það er skemmtilegra svona.
Maður sér bara næstu tvö skref fram fyrir sig, alls staðar annars staðar er bara myrkur og smá týrur úr vasaljósum hinna. Þetta er klifur í myrkri og ég er að fílaða.
Það var líka æðislegt að heimsækja mömmu gömlu, en ég hlakka óskaplega til að fara að sofa í mínu rúmi í nótt. Það er alltaf best fyrir bakið mitt.
Elsta dóttirin mín á svo afmæli á morgun, hún er að verða þrettán ára litla stýrið.
Það snjóaði dálítið í dag og börnin mín eru ennþá úti að leika í snjónum, þótt klukkan sé orðin aðeins meira en átta eftir kvöldmat.
Ég stefni á gott bað og Harry Potter uppí rúmi með börnunum á næsta klukkutíma
LOVIT

20.11.09

Algjör sveppur

Ég er að flísa hjá mér eldhúsið og mála myndir á veggina.
Kannski á ég eftir að lenda í hroðalegum vandræðum einn daginn þegar ég ætla að hafa hvíta veggi heima hjá mér og engar myndir. Það verður örugglega ekki auðvelt að mála yfir þetta allt saman, en jæja. Er á meðan er. Ég hef mjög gaman að þessu.
Núna er ég að bíða eftir að fúgan taki sig aðeins svo ég geti farið að hreinsa.
Árshátíð í vinnunni á morgun, og litli bróðir og kærastan koma að passa með börnin sín tvö.
Skrýtið, en ég hlakka meira til að fá þau í heimsókn heldur en að fara á árshátíðina.
Ég er sennilega frekar mikill félagsskítur.
En kannski verður bara feikna fjör.
Sjáum til hvernig það fer.

12.11.09

Vinsamlegast ekki segja ömmu minni frá þessu bloggi, og alls alls ekki lesa það fyrir hana. Takk fyrir

Um helgina sá ég músatítlu inní þvottahúsi. Ég fór og leitaði smá stund, en sá hana ekkert aftur. Hundarnir voru svo lokaðir inní þvottahúsi um nóttina og vonaði ég innilega að þeir hefðu fundið músina og étið hana bara eða eitthvað.
Nú, í gær kallaði Stormur á mig þar sem hann stóð uppí sófa og sagði að músaranginn hefði tekið hægri beygju beint inn í hans herbergi þar sem hún kom lallandi út úr mínu.
Jæja, upphófst þá mikill eltingaleikur.
Ég sagði Stormi að taka loftriffilinn og skjóta kvekindið, en það hljóp svo hratt að hann náði því aldrei í sigti.
Ég lofaði krökkunum mínum þúsund kalli ef þú gætu náð músinni.
Meira og minna í allt gærkvöld voru þau lokuð inní herbergi að brölta við að ná kvikindinu, en ekkert gekk.

Áður en ég fór að sofa setti ég Síríus súkkulaði með rúsínum á músagildru sem ég fékk lánaða hjá félaga mínum. Í morgun sýndi ég krökkunum þetta afar litla dýr áður en ég henti því í poka og kastaði út í tunnu.

Þá kemur spurningin:
Eiga þau að borga mér þúsundkall?

11.11.09

Vakningaþjónustan ehf.

Stundum er Doppan mín voðalega lúin á morgnana.
Þá bregð ég stundum á það ráð að smjatta upp við hana og spyrja hana hvort ég megi borða hana. Hún brosir alltaf að þessu, og þannig kjafta ég hana upp í að opna augun og að lokum að koma á fætur.
Í morgun var hún alveg sérlega fyndin:
Ég: smjatt smjatt, ég ætla að borða á þér eyrað
D: Nei, þá get ég ekki heyrt neitt!
Ég: Þá ætla ég að borða á þér munninn
D: Nei, þá get ég ekki talað
Ég: Má ég þá smakka aðeins á augunum?
D: Nei, þá get ég ekki séð neitt!
Ég: Þá ét ég nefið á þér
D: (huxar sig um nokkrar sekúndur) Nei, þá get ég ekki snítið mér!!!

6.11.09

Nú kemur önnur langloka, en það er bara leitt fyrir þig, því að ég verð að losna við þetta úr hausnum á mér. Sama þótt það hljómi ömurlega leiðinlega

Í gær gerðist ég hundahatari. Það er ekki víst að ég geti nokkurn tímann framar notið þess að klappa hundi eða fara út að ganga með hund eða hvað sem það er sem fólk gerir til að hafa gaman af þessum kvikindum.

Mínir hundar skíta ógeðslega mikið. Þeir eru alltaf sískítandi. Það er fátt viðurstyggilegra en að taka volgan skít í poka og geyma þar til maður kemst í ruslatunnu.

Mínir hundar þurfa rosalega mikinn félagsskap, þeir eru bókstaflega ofan í mér hverja einustu mínútu sem ég er heima hjá mér. Þeir standa svo nálægt mér að ef ég ætla að snúa við, þá labba ég á hund. Ef ég stend upp, þá lendir stóllinn minn á hundi, ef ég er að gera eitthvað og fer svo frá því, þá dett ég um hund. Alveg ótrúlegt, hvernig þeir vilja helst skríða inn í rassgatið á mér til að kúra.

Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni ákvað ég að baka köku.
Ég skellti í eina stóra súkkulaðitertu og hrærði flórsykurskrem til að setja á hana. Það var bleikt, grænt og gult og þetta var ótrúlega flott og frábær kaka. Börnin mín hlökkuðu mikið til að háma hana í sig eftir kvöldmatinn. En þau urðu að bíða, því að það verður jú að borða hollt fyrst. Kakan beið því uppi á eldavélinni. Ég þurfti svo að skreppa aðeins út eftir Orminum elsta.
Þegar ég kom til baka voru krakkaskammirnar búnar að skafa kremið ofan af hálfri kökunni.
Ég kallaði í þau og skammaði þau fyrir, hvurslags dónaskapur þetta væri eiginlega. En þau greyin könnuðust ekkert við þetta, og voru hin furðulegustu.
Þá fór að renna upp ljós hjá ungamömmu. Helvítis hundbjánarnir höfðu þá sleikt kökuna, og þegar við fórum að skoða aðstæður betur, þá kom auðvitað í ljós að það var rétt.
Þeir höfðu eyðilagt kökuna blessaðir.

Jæja, ég henti þeim fram í geymslu í bræði minni og kemst þá að því að þeir eru búnir að drulla í búrið sitt og draga teppið yfir það.
Næsta klukkutímann var ég vegna þessa með þvottahanska og nefklemmu að skafa skítinn úr öllum rifum og hornum, taka búrið saman, dröslast með það út til að smúla það, og svo að skúra alla geymsluna.

Jæja, þegar ég kem aftur inn eftir að hafa smúlað búrið, fer ég beint í bílskúrinn til að skrúfa fyrir vatnið og hvað blasir þá við mér á bílskúrsgólfinu, nema ein risastór skítahrúgan enn.

Og þá var mér allri lokið. Ég tók hundana á ólunum og grýtti þeim út í girðingu.
Og þar fengu þeir að dúsa þar til ég fór að sofa.
Ég lokaði þá svo inni á klósetti í nótt, því búrið var að þurrkast og mér datt það sko ekki til hugar að hafa þá lausa, þessa bjána.

Jæja, hvað haldið svo að hafi tekið á móti okkur í morgun?
Klósettburstinn nagaður, öll dömubindi heimilisins og klósettpappírinn tættur um allt og tilheyrandi út um öll gólf.

Hvað segiru? Langar þig ekki að taka að þér tvo hunda? Eða á ég bara að stoppa þá upp?

3.11.09

Að sofa nægju sína

Svefn er dásamlegt fyrirbæri.
Nánast hvern einasta morgun þegar ég vakna, langar mig að sofa lengur.
Stundum geri ég það, og þá á kostnað þvottahússins, því þegar ég vakna á mínum vanalega tíma, þá set ég alltaf í eina þvottavél þegar ég er búin að fara út með hundana og gefa þeim að éta.
Þegar ég skríð upp í á kvöldin þá get ég oft sofnað næstum því áður en ég leggst niður.
Og stundum þegar er búið að vera mikið að gera, sofna ég áður en ég kemst uppí. Það er aldrei gott, því þá er ég í einhverjum asnalegum stellingum og verð hálf beygluð eitthvað í kjölfarið.
Ég hef alltaf átt auðvelt með að sofa, og oft verið frekar lúin svona almennt séð.
Ég hef þann dásamlega hæfileika að geta komið mér fyrir á góðum stað og lokað augunum og steinsofnað í nánast hvaða umhverfi sem er. Þetta er genatískt.
Já mér finnst gott að sofa. Og sérstaklega ef ég fæ að sofa upp í rúmi.

Þetta er forsagan að svefnsögunni minni sem þú færð núna að heyra:

Á föstudaginn síðasta fékk hún Doppa mín, 3 ára, að gista hjá vinkonu sinni.
Ég fór í rúmið rétt rúmlega 23 það kvöld og huxaði mér gott til glóðarinnar að geta sofið alla nóttina og langt fram á næsta morgun.
Ég var vakin í hádeginu næsta morgun, og rauk upp því við systkinin ætluðum að hittast hjá stóra bróður og skera hross. Það var einmitt mæting í hádeginu.
Ég fann fyrir vægum sting í hægri mjaðmaspaða og velti því ekkert fyrir mér.
Sennilega hef ég sofið á sömu hliðinni alla nóttina, huxaði ég með mér.
Þetta lagast.
Verkurinn ágerðist örlítið, því næstu nótt svaf ég í rúminu hennar Doppu með bæði Doppu og Gorminn hjá mér. Þá var þröngt á þingi og svaf ég alveg örugglega alla nóttina á sömu hliðinni.
Eníhú.
Það var svo í gærkvöldi, eftir mjög svo annasaman dag, þar sem ég kom ekkert heim til mín fyrr en rétt að verða 22, að ég fann fyrir verulegum verk neðst í bakinu og mjöðminni.
Ég ákveð því fyrir tilstuðlan bónda míns að leggjast í mjög mjög heitt bað, og reyna að láta þetta líða úr mér.
Sem sé. Ég leggst í baðið og halla aðeins þreyttum augum mínum.
Þegar ég opnaði augun aftur, var baðvatnið orðið hlandvolgt. Þá hafði ég sofnað og sofið dágóða stund.
Ég lagðist þá ísköld upp í rúm og hélt áfram að sofa.

Núna ligg ég í rúminu og er búin að taka íbúfen. Bakið er alveg að drepa mig og ég get varla staðið upp ef ég sit á hörðum stól.

Af þessum hugleiðingum loknum hlýt ég að álykta sem svo að svefn sé fyrirbæri sem ekki skal nota of mikið af í einu og að svefn sé ekki gott að stunda í baði.
Einnig vil ég benda á það að ég átti frí í dag, en ekki hvað!!!