28.7.08

afhommun eða áhommun

Já, hún Magga hitti naglann á höfuðið. Þetta er barasta spurning um að á-homma Gunnar í Krossinum. Þá getur hann snúið sér til frelsara síns og spurt hvort hann elski hann enn.

Ég er ekki í neinum vafa.

23.7.08

Afhommun

Gunnar í Krossinum var í viðtali í einhverjum útvarpsþætti sem ég hlustaði á á leiðinni í vinnuna í morgun.
Þar var hann að tala um hvernig hommar gætu snúið frá villu sinni og orðið eðlilegir á ný.
Hann sagði að þetta væri bara eins og með alla aðra syndara, þeir þyrftu bara að iðrast synda sinna og snúa sér að Ésú Kristi. Þá myndu þeir losna við þessar afbrigðilegu hvatir.
Hann var þá spurður um tilfinningar, hvort menn (og konur) ættu þá að hundsa það sem hjartað byði þeim, allar tilfinningarnar. Þá sagði Gunnsi að tilfinningar væru bara afkvæmi huxana okkar, þannig að ef samkynhneigðir huxuðu bara ekki um þessar brengluðu hvatir sínar, þá væri þeim borgið.
Hann velti einnig þeirri spurningu upp hvort að við ættum að halda skrúðgöngu til að fagna manninum sem veltist á merinni sinni (þarna fyrir austan fjall) um árið. Hann hefði jafn afbrigðilegar hvatir og hommar og lesbíur.
Hann velti því einnig fyrir sér hvort að barnaníð væri þá afbrigðileg hvöt sem yrði samþykkt einhvern daginn.

Það sem er svo magnað við þennan Gunnar, kenndan við Krossinn, er hversu mælskur hann er. Hann svarar öllum spurningum strax, á alltaf tilvitnanir og svör við öllu sem sagt er. Sannfæringarkrafturinn er slíkur, að menn hrífast með honum. (að minnsta kosti sumir)

Hins vegar er ég ekki sammála honum að samkynhneigð sé bara einhver synd, sem maður getur beðið sig frá.
Ég hef reyndar ekki persónulega reynslu af samkynhneigð, aðra en þá að ég er mjög hrifin af hinu kyninu.
Ég held að ást og aðrar tengdar tilfinningar séu mjög flókin fyrirbæri.
Eitthvað sem fólk ætti að vara sig á að dæma.
Enda af hverju þurfum við alltaf að vera að hafa skoðanir á öllu?
Má fólk ekki bara vera til eins og það er?
Þarf Pétur og Páll (Og Gunnar) alltaf að vita betur?
Svo er líka annað...
Nefnið umburðarlyndasta og kærleiksríkasta manninn í sögunni...
Ésú
Nefnið þann sem alltaf neitaði að dæma fólk...
Ésú
Nefnið þann sem gaf öllum tækifæri...
Ésú

Ætti Gunnar í Krossinum þá ekki að reyna að lifa eins og Ésú, í stað þess að vera alltaf að þrautrýna í ritningarnar?
Er ekki alltaf sagt að við börnin gerum eins og fyrir okkur er haft?

Annars er ég bara róleg sko...

18.7.08

Það var enginn sónn

Reyndar var enginn tengill heldur, eða símalína ef því er að skipta.
Hann kom svo hérna kallgreyið sem ég kallaði víst vin minn. Myndardrengur.
Hann sagði mér að það væru engar línur. Bara allt fullnotað víst.
Ég þarf því að bíða aðeins lengur.
Það sem kom mér svo meira á óvart núna í vikunni er það að síminn sendi mér reikning.
Þeir eru að rukka mig um afnotagjöld af línunni sinni, frá og með 13. júní.
Það var sko þá sem ég hringdi og bað þá um að tengja mig við umheiminn.
Ef þetta er ekki makalaust þá veit ég ekki hvað.
Og eins og móðursystir mín sagði í kommenti, þá eru allir að keppast um viðskiptavinina, allir að reyna að bjóða sem besta díla.
Uss uss uss...
Ég segi nú ekki meira.

14.7.08

Er það von að ég hafi skipt um símafyrirtæki???

Á föstudaginn voru komnar4 vikur síðan ég bað símamenn að setja inn línu hjá mér.
Ég er viðskiptavinur vodafone eftir hrakafarir sem ég nenni ekki einu sinni að rifja upp lengur.
Hins vegar kaupir vodafone þjónustu af símanum og þurfti ég þess vegna að biðja þá um aðstoð.
Í morgun fæ ég svo frekar fyndið símtal.
Það er ungur maður á línunni sem spyr mig:
" Er sónn í símanum hjá þér?"
Ég svara neitandi, enda hefur enginn komið til að tengja inn línuna.
"Já, ég skil, en ef þú tengir símann í tengilinn, kemur þá sónn í símtólið?"
Nei, ég segi honum að ég geti ekki tengt símann í tengilinn, því enginn hafi komið að tengja línuna inn í húsið ennþá.
"Jújú, það stendur hérna hjá mér í tölvunni að þetta mál sé lokað..."
Ég held mig fast við það að enginn hafi komið. Spyr hann svo hvort að þeir fari nokkuð inn meðan fólk er ekki heima.
Nei hann kannast ekki við það.
Ég sagði honum að ég myndi athuga þetta þegar ég kæmi heim í dag.
"Já, og ef það kemur enginn sónn, þá þarftu að hringja í 800-7000, (siminn) og tilkynna þeim það"
Takk fyrir það vinur (lesist:fáviti)!!!

4.7.08

Halló heimur

Ég er enn ekki orðin nettengd, og ekki komin með heimasíma.
Skítt með heimasímann, þar sem ég er með gemsa.
En mánaðarmót án nettengingar.... Ekki alveg að gera sig.
Eins gott að ég á ennþá vini, býð mér í mat til þeirra og nota netið.

Ég er búin að skila íbúðinni í Reykjavík. Pjúff, hvað var mikil vinna að þrífa hana. Það er alveg hreint ótrúlegt hvað hornin voru skítug.
Ekkert annað samt... nei nei

Þetta er fyrsti dagurinn minn á bakvaktinni, og ég krossa fingur og vona að allt gangi vel.
Annars bara... HÆ
og bæ.