27.8.08

(sungið með konga takti...)

Bara einn enn dagur... Bara einn enn dagur... Bara einn enn dagur
HEY

Ímyndið ykkur að ég sé að dansa með konga takti í vinnunni.
Þá vitiði hvað ég bíð spennt eftir morgundeginum.

26.8.08

HÆ HÆ

Ég svaf yfir úrslitaleiknum í handboltanum á sunnudagsmorgunin.
Dröslaðist fram í sófa og steinsvaf svo þar. Það var algjört æði.
Nú eru bara 2 dagar þar til kallinn minn kemur heim í tveggja vikna frí.
JIBBBBBBÍÍÍÍÍÍÍ!!!
Ég hlakka til.

23.8.08

Hræsni

Ég telst til þeirra sem skipta sér ekkert af handbolta nema hann sé sýndur í sjónvarpinu. Og ekki einu sinni alltaf. Bara þegar ég hef ekkert annað sem bíður mín.
Hins vegar ætla ég að vakna til að horfa á leikinn í fyrramálið.
En ekki hvað?
Hræsnari???
Dæmi ekki um það sjálf.
En ég mun hafa gaman að horfa.
Njótið öll. Sendum jákvæða strauma.

22.8.08

Handbolti hvað???

Allir eru allt í einu orðnir svakalegir handboltaáhugamenn. Fólk talar ekki um annað en hvað "strákarnir okkar" séu að gera góða hluti.
Það heyrast öskur og gleðilæti út úr öllum húsum í bænum. Í vinnunni fóru menn ekki í mat í dag, heldur stilltu tölvuna á ruv.is og horfðu á leikinn.
Gaman. Allir brosa og eru í léttu skapi.
Ég er auðvitað ánægð með piltana. Þeir standa sig vel. Ég gleðst alltaf yfir því þegar íslenskt fólk nær langt á einhvern heilbrigðan hátt. Eins og til dæmis í íþróttum.
Það sem mér finnst grjótfúlt að sjá er að þegar fatlaðir á Íslandi eru að gera góða hluti erlendis, fá þeir enga umfjöllun.
Þeir fara á stórmót, heimsmeistaramót og alls konar mót og eru oft og iðulega að sópa til sín verðlaunapeningum.
Hvar er svo sagt frá því? Í einhverri lítilli klausu á íþróttafréttasíðunni. Síðunni sem enginn les.
Ekki á forsíðu allra dagblaða, og ekki á öllum fréttavefjum á netinu. Við vitum oft ekki einu sinni af því þegar fatlaður íþróttamaður frá litla Íslandi sigrar á stórmóti erlendis.
Það finnst mér asnalegt.

15.8.08

RIS vandamál

Kerfið sem notað er í vinnunni til skráningar heitir Kodak RIS 2010.
Í morgun voru einhver vandræði með kerfið. Ekki var hægt að logga sig inn í dagbókina og þar af leiðandi allt fast.
Í hádeginu tjáði ég samstarfskonum okkar innar af ganginum að við Guðrún ættum við RIS vandamál að stríða. Við gætum ekki haldið okkar daglegu RIS dagbók.
Já, það frekar lágt á mér RIS ið þessa dagana, enda ekki mikið um RIS heima við, og ekkert nema RIS vandamál í vinnunni.
GUÐ MINN GÓÐUR!!!

14.8.08

Röð og regla

Það er alltaf yndislegt þegar sumarið kemur. Gott veður, og allir eru svo bjartsýnir og kátir.
Haustinu er samt tekið með gleði, því þá kemur aftur reglan og allt dettur aftur í fastar skorður.
Skólinn er settur í næstu viku. Ég er ekki að fara í skólann. Í fyrsta sinn síðan guð má vita hvenær. Núna fylgi ég bara börnunum.
Doppa byrjar á leikskólanum í september og hún hlakkar hrikalega til. Er búin að vera að spyrja um leikskólann síðustu vikur. Finnst það spennandi.
Svo kemur kallinn heim í tveggja vikna leyfi í enda mánaðarins.
Það er auðvitað aðal málið.
Smá óregla í allri reglunni sem verður þá komin á lífið...
Ég hlakka til.

9.8.08

jamm og já

Kom heim til mín kl. 0.15 og þreif eldhúsið.
Kyssti og knúsaði þrjá grislinga fyrir háttinn og skreið svo uppí hjá þeim fjórða.

Vaknaði þunn í morgun. Höfuðverkur, munnþurrkur, augnsviði, ógleði, þreyta.
Mig rekur samt ekki minni til þess að ég hafi nokkuð drukkið í langan tíma.

Að minnsta kosti ekki í gærkvöldi.

Núna sit ég upp á sjúkrahúsi.
Búin að vinna minn hluta vinnunnar, og þá er bara að bíða eftir áliti læknisins.

Þynnkan er að mestu rokin úr mér.
Sem betur fer.
Það er ömurlegast í heimi að drekka ekki, en verða samt þunnur.
Ætli það sé til eitthvað læknisheiti yfir það?
Kannski bara pest, eða flensa eða þreyta...

8.8.08

af samviskubiti og viðlíka gáfulegum hlutum

Sit hérna uppá sjúkrahúsi. Bakvakt.
Ég er búin að vera 1 1/2 tíma.
Samviskubitið nagar mig.
Krakkarnir mínir sem eru svo duglegir að vera einir heima... eru ennþá einir heima.
Ég er ekki heima þegar þau vakna, og ekki þegar þau fara að sofa.
Ég er ekki heima í hádeginu og ekki í kvöldmatnum.
Svo er ég þreytt og ekki til í að vera úti að leika í tvo tíma eftir vinnu.
Það kostar grát og leiðindi.
Doppa var dregin heim á fýlunni eftir rúmlega klukkutíma leik úti með mömmu.
Hinir krakkarnir fóru í sund á meðan. Ég hef til dæmis ekki séð strákana nema í rétt nokkrar mínútur í dag.
Kannski er þetta bara væl, en samviskubit er andstyggileg tilfinning.
Það ætti barasta að banna hana.
Enginn sími og ekkert net.
Það eru komnir 38 virkir dagar, 8 vikur!!!
Ég er búin að hringja og ég er búin að hringja. Og alltaf úr gemsanum auðvitað.
Reikningurinn verður svimandi.
Ég hringdi í vodafone og ég hringdi í símann og ég hringdi í TRS Selfossi
Og enginn bara vill bera ábyrgð á þessu.
Núna síðast bentu þeir á Mílu. Ég veit ekki einu sinni hvaða fyrirtæki það er!!!
Ég sendi þeim tölvupóst, mjög kurteisan tölvupóst.
Vonandi virkar þetta.
Mér finnst svo glatað að blogga í vinnunni, og ég vil ekki vera að setja allan bloggrúntinn minn inn á history á vinnutölvunni.
Svo ég er bara net-svelt þessa dagana.
Glatað!!!

5.8.08

Of feitur til að deyja

Já, það er ýmislegt skrýtið í fréttunum.
Fangi einn sem á að drepa fyrir að drepa er víst of feitur til að drepast.
Það þykir mér afar merkilegt.
http://visir.is/article/20080805/FRETTIR02/59619917

2.8.08

Bónusferð

Á leiðinni í bónus fann ég fyrir smá saumsprettu á bossanum þegar ég reimaði skóna, en ég velti því ekkert fyrir mér. Það var ekkert sem sást.
Þegar við vorum búin að versla þurfti Doppa að pissa.
Ég í sveitasælunni beygi mig bara niður með hana á milli bíla á bílastæðinu til að láta hana pissa.
Um leið opnuðust buxurnar mínar að aftan úr klofinu og alveg upp á streng.
Nærbuxurnar að þessu sinni voru eldrauðar, svo þetta var skuggalega áberandi.
Sem betur fer var ég með risastórt veski, sem ég setti fyrir bossann á leiðinni að mínum bíl.
Hva... ég fer nú ekki að láta barnið pissa hjá MÍNUM bíl!!!
Skemmtilegt.