31.5.08

Blogg blogg

Það tala allir um jarðskjálftana. Segja hvar þeir voru og hvernig þetta var, hvað skemmdist og hvern þeir þekkja sem lenti í mestu tjóninu.
Aðrir vilja gera lítið úr áhuga manna á skjálftunum, segja að við séum búsett á landi eldfjalla og jarðskjálfta og við eigum hreinlega ekki að missa okkur svona yfir smámunum. Það sé bara kjánalegt að gera svona mikið úr þessu smáræði.

Ég hef aldrei verið hrædd við jarðskjálfta. Hefur alltaf fundist ég vera alveg örugg þótt jörðin hristist aðeins. Ekkert stórmál.
Á fimmtudaginn varð ég hins vegar dálítið smeik. Ég huxaði ekki svo mikið á meðan ég stökk niður úr stiganum og hljóp á eftir pabba út. En á eftir var ég vör um mig. Þegar eftirskjálftarnir drundu var ég alltaf viðbúin að stökkva af stað. Ég titraði alveg inn að beini á meðan við skoðuðum húsið og athuguðum með skemmdir.
Húsið mitt stóð þetta allt af sér og ekkert skemmdist.

Ég er ekkert hrædd lengur.
Verð að vinna alla helgina eins og venjulega. Það er kaffi á könnunni. Hún er óbrotin.

28.5.08

Þegar allt gengur á afturfótunum, en samt er allt í stakasta lagi!!!

Þá er maður þreyttur. Ekki satt?
Ég er búin að vera að baksa við þennan brjóstagjafapúða hérna í nokkurn tíma. Fékk púða í hendurnar til að laga og fylla á, en ég saumaði hann ekki sjálf, heldur einhver önnur kona.
Ég fyllti á hann. Þá passaði hann ekki í ytri pokann. Ég opnaði hann og tók úr honum og fékk einangrunarplastkúlur út um allt hús. Auðvitað...
Saumaði aftur fyrir í höndunum og tróð í ytri pokann. Hann passar ekki enn!!!
Svo ég ákveð að opna hann aftur og losa, og loka og fá kúlur um allt. En hann passar ekki enn!!!
Nú er ég að missa vitið. Búin að eyða allt of löngum tíma í þetta einfalda verk.
Ákveð þá að sauma bara nýtt utan um hann. Var hvort eð er búin að lofa að sauma á hann axlaról til að auðvelt væri að ferðast með hann. Ríf upp efni og sníð, ríf upp saumavélina og þræði, en NEI, ENGIN NÁL. Og ég var búin að gleyma því að ég braut þá síðustu þegar ég saumaði síðast. Klukkan er orðin of margt og ég er búin að klúðra þessu. Ætlaði að skila púðanum klukkan 8.30 í fyrramálið.
DEM!!!
Svo núna sit ég á púðanum við tölvuna í þeirri von að hann minnki við að vera í rassapressu hjá mér. Krosslegg fingur og vona að það dugi. Meira get ég ekki gert.

Doppa sagði mér áðan þegar ég spurði hana hvað hún héti: Ég er peggjára (2 ára) og svo priggára í desember (3 ára)
Klár krakki!

24.5.08

Og þvílík fjölskylda sem ég á!!!

Í dag kom móðurfjölskyldan mín til að hjálpa mér í húsinu.
Það komu hvorki meira né minna en 14 fullorðnir og 9 börn.
Að auki var ég auðvitað þarna með mína 4 grislinga.
Það var svo mikið af fólki að ég var orðin helringluð á endanum að reyna að finna verkefni fyrir alla. Þau kláruðu að mála allt á efri hæðinni sem var tilbúið, júdósalinn og baðherbergið niðri. Svo var kíttað í hornin og gluggar á neðri hæðinni græjaðir fyrir lokun og þrifnir. Eldhúsið var þrifið hátt og lágt og byrjað í garðinum. Ég hélt áfram að dúndra upp gipsi á útveggina.
Á eftir fengu sér allir kjötsúpu og kjöftuðu og hlógu. Mikið er gaman að hitta fjölskylduna sína.
Seinni partinn fékk ég svo send Reynitré sem eru ættuð úr garðinum hennar ömmu á Selfossi, og reyndar miklu lengra aftur úr hennar fjölskyldu og birkitré líka.
Þvílík dýrð.
Takk fyrir daginn kæra fjölskylda. Þið eruð yndisleg.

14.5.08

Lokaeinkunnin komin

Ég fékk einkunnina 9 fyrir lokaverkefnið mitt og er auðvitað alveg hæstánægð með það.
Ég var næsthæst í bekknum, og ekki spillir það fyrir. Alltaf gott að vera betri en aðrir.

Ég sit hérna við eldhúsborðið og var á leiðinni í bælið, en þá sótti að mér einhver tregi.
Það er eitthvað pínulítið sorglegt við að þetta sé búið. Þá þarf ég að flytja og skipta um nágranna. Skipta um skóla og leikskóla fyrir börnin, skipta um götu og breyta öllu.
Ég hlakka til, en það er samt ákveðinn endir. Mér hefur liðið mjög vel hérna í Reykjavíkinni þessi ár sem ég er búin að vera í námi.
Þetta hefur verið krefjandi og stundum helvíti erfitt bara, en það er einmitt það sem er svo frábært og skemmtilegt við það. Að fá almennilegt verkefni og gera allt gott úr því.
Þetta er það sem maður kemur til með að muna í ellinni. Skemmtilegu árin þegar maður var alltaf á haus í verkefnum og hamagangi.
Og lét það allt saman ganga upp.

9.5.08

BÚIN
BÚIN
BÚIN
BÚIN
BÚIN
BÚIN

8.5.08

Vörnin er á morgun!!

Krossið fingur og tær ef þið getið.
Á morgun klukkan nákvæmlega nokkurnveginn 10.30 fer fram BSc.lokaverkefnisvörnin mín.
Tek við hamingjuóskum eftir hádegi.
JIBBBBBBBÍÍÍÍÍÍÍÍÍ.........
Ef ég svara ekki, eða er grátandi, þá bara drepið mig.

6.5.08

Nokkur atvinnuleyndarmál...



Margar hendur vinna létt verk.

Þess vegna gengur mér svona vel í lífinu. Því ég hef svo margar hendur. Þetta hefur verið leyndarmál lengi, því ég vil komast hjá æstum aðdáendunum.

Það er bara ekki ég að vera með hóp af öskrandi áhangendum á eftir mér allan daginn.

Svo gerði ég mér grein fyrir ákveðinni staðreynd:

Ég ER með hóp af öskrandi áhangendum á eftir mér allan daginn.

Svo ég ákvað að ljóstra upp leyndarmálinu.

Einnig versla ég í búð sem selur aukaklukkustundir í sólarhringinn. Slóðin er http://www.aukastundir.is/

Njótið.

3.5.08

Bara kominn mæ

Þetta er ótrúlegt, hvað tíminn líður hratt.
Það er bara kominn mæ mánuður, og skólinn fer bráðum að verða búinn hjá krökkunum. Veðrið er orðið yndislegt... þ.e á suðurlandi.
Þau leika sér úti á kvöldin, og eru fúl að þurfa að koma inn. Þau hjóla og leika sér með brennibolta. Hoppa á trampólínum hjá nágrönnunum og þannig.
Alveg meiriháttar.
Ég ver ritgerðina mína næsta föstudag, og eftir það er ég bara komin í frí til 16. júní, þegar ég byrja svo að vinna.
Verð fyrir austan, og það er kaffi á könnunni ef þið eigið leið hjá.