17.4.10

Fermingarpælingar

Fyrst ég er búin að setja tóninn og er farin að skrifa fréttaskýringar frá sjónvarpsstöðinni Omega, þá ætla ég að halda áfram með pælingarnar.
Þannig er mál með vexti að dóttir mín ætlar að láta ferma sig núna í maí. Hún ætlar að játa trú sína á Ésú Kr. Jósefssyni og staðfesta þar með skírn sína, sem var upphaflega mín hugmynd, og kviknaði þegar hún var u.þ.b. 9 mánaða.
Hún var skírð 11 mánaða, farin að labba sjálf, og var í síðum hvítum blúndukjól. Algjör rúsína.
Núna verður hún orðin 13 ára og 5 mánaða og hefur tekið sjálfstæða og upplýsta ákvörðun um trú sína. Hún vill verða hluti af þjóðkirkjunni.
Amma hennar og afi eru yfirlýst ásatrúarfólk, og ég veit ekki til þess að neinn í kring um hana hafi yfir höfuð farið í kirkju í mörg ár, nema rétt til að láta skíra grislingana sína eða barnabörnin.
Við sækjum öll ásatrúarblót sem við komumst á, því okkur finnst gaman að fagna arfleifð okkar, klæða okkur upp í víkingaföt og gleðjast með öðru jafnskrýtnu og ef ekki skrýtnara fólki.
Okkur þykir vænt um gömlu hefðirnar, þar sem heill er drukkin Óðni, Þór og Freyju, náttúran er lofuð og allar vættir.
Að auki höfum við ýkt gaman að gamaldags rímum og tónlist.
Ásatrúarmenn predika aldrei neitt, en þeir trúa á að hver maður eigi að bera ábyrgð á gerðum sínum og orðum og að við eigum að bera virðingu fyrir öllu lífi. Í lögum félaxins segir að allir megi iðka sína trú á sínum eigin forsendum, svo framarlega sem það brýtur ekki landslög. Einfalt og þægilegt ekki satt?
Ég er búin að ræða trúmál mikið við dóttur mína, sem er einkar staðföst.
Hún hefur fundið fyrir Guði.
Ésú Kr. Jósefsson hefur snert hjarta hennar.
Ésú var góður maður. Hann elskaði alla og dæmdi engan. Hann var góður við börn og naut þess að segja þeim sögur. Ésú hafði stórt verkefni í lífinu og hann stóð sig sérlega vel.
Ég hef fulla trú á því að hann hafi predikað að hver og einn beri ábyrgð á eigin gerðum og orðum, drenglyndi og heiðarleika.

Mér er svo sem slétt sama á hvað dóttir mín trúir.
Ef hún getur lært og lifað eftir þeim gildum sem bæði Ésú og hinn heiðni siður predikar, þá er ég sátt.
Ég ætla að halda henni rosalegan fermingarfagnað og bjóða öllum nánustu ættingjunum og öllum bestu vinunum.
Ekki bara af því að það er hefðin, þótt hefðin sé skemmtileg, heldur af því að sjálfstæða litla trippið mitt tók upplýsta og sjálfstæða ákvörðun um að verða góð manneskja og af því er ég stolt.


3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf jafn gaman að lesa það sem þú skrifar, enn betra að heyra það frá þér beint í æð ;)

Ég er líka stolt af henni, og þar af leiðandi stolt af þér, því hún væri ekki manneskjan sem hún er í dag ef ekki væri fyrir þig..

Sóley

Nafnlaus sagði...

Jæja.. búin að kommenta á hverja einustu færslu hjá þér mín kæra, búin að skemmta mér mjöööööög vel við það, því það er ekki leiðinlegt að lesa bloggið þitt, það hefur ekki verið ástæðan fyrir kommentaleysið frá mér..

Get ekki beðið eftir að hitta þig í eigin persónu á mánudagsmorgun :D

Sóley

Nafnlaus sagði...

Hmmmm...

Sakna þess að lesa þig ljúfust

Sóley